Fyrir opnum tjöldum
Stjórnlagaráð ákvað að bjóða fólkinu í landinu að hjálpa til við smíði stjórnarskrárfrumvarpsins á netinu, og vakti sú aðferð talsverða athygli í erlendum fjölmiðlum (sjá t.d. Guardian, 9. júní 2011). Þessi ákvörðun reyndist vel, og ekki fylgdu henni nein vandkvæði. Vitað var, að venjulegt fólk víðs vegar um samfélagið hafði mikinn áhuga á endurskoðun stjórnarskrárinnar. Annars hefðu varla 522 Íslendingar boðið sig fram til stjórnlagaþings. Þjóðfundinn 2010 sóttu 950 manns valin af handahófi úr þjóðskrá. Allir Íslendingar 18 ára og eldri höfðu sama tækifæri til að veljast til setu á þjóðfundinum.
Vinna Stjórnlagaráðs fór fram í þrem áföngum. Fyrst setti ráðið á vef sinn ýmsar bráðabirgðatillögur, sem verið var að vinna að. Eftir að hafa þegið fjölmargar uppástungur og athugasemdir utan úr samfélaginu birti ráðið nýja gerð tillagnanna tveim til þrem vikum síðar. Að lokum voru frumvarpsdrögin í heild rædd fram og aftur, og var þá sett saman lokagerð, sem Stjórnlagaráð greiddi atkvæði um. Sérhver grein var samþykkt með miklum meiri hluta atkvæða og oft mótatkvæðalaust. Eftir að greinar um kosningakerfi og náttúruauðlindir höfðu verið samþykktar, brauzt út lófaklapp. Frumvarpið í heild var samþykkt einum rómi með 25 atkvæðum gegn engu.
Umferðin um vefsetur Stjórnlagaráðs vitnar um áhuga almennings. Ráðinu bárust 323 formleg erindi og ráðsfulltrúar ræddu þau öll og svöruðu þeim. Þá voru 3.600 athugasemdir gerðar við ýmis ákvæði á vefsetrinu. Nær allar tillögur og athugasemdir komu að einhverju gagni. Ef enginn gerði athugasemd, var það einnig á sinn hátt gagnlegt, því þá hlutum við að álykta, að við værum e.t.v. á réttri leið. Allur ótti um, að vefsetur Stjórnlagaráðs myndi drukkna í lítilsverðu þrefi og stappi reyndist ástæðulaus. Allt þetta stangaðist á við þær venjur, sem marka íslenzka stjórnmálamenningu og geta varla talizt sitja í háum söðli. Af hverju slapp Stjórnlagaráð við þá pytti alla? Ein ástæðan kann að vera sú, að umræður í Stjórnlagaráði einkenndust af gagnkvæmri kurteisi og virðingu. Stjórnlagaráðsmenn báru djúpa virðingu fyrir því verkefni, sem þeim hafði verið falið af þjóð og þingi. Sjónvarpað var beint á netinu frá fundum ráðsins og yfirleitt horfðu 150-450 manns á útsendingarnar. Meira en 50 viðtöl við ráðsfulltrúa og aðra, sem við sögu komu, voru settar á YouTube, og í lok árs 2011 hafði verið horft á þau 5.000 sinnum. Á vefsetri Stjórnlagaráðs má enn finna mikið af upplýsingum um starf ráðsins. Þá voru símanúmer og netföng stjórnlagaráðsmanna birt opinberlega, og allir gátu haft samband við þá. Stjórnlagaþing Bandaríkjanna kom saman fyrir luktum dyrum í Fíladelfíu 1787.
En þótt Stjórnlagaráð hafi lagt mikið upp úr samvinnu við almenning, var einnig stöðugt leitað ráða hjá sérfræðingum. Skýrsla stjórnlaganefndar var sneisafull af góðum hugmyndum. Margir sérfræðingar, bæði lögfræðingar og aðrir, komu fyrir ráðið eða skiluðu skriflegum greinargerðum. Ráðið gat að sjálfsögðu ekki leitað til allra sérfræðinga, sem til greina komu, en allir, sem vildu leggja eitthvað til málanna, gátu gert það. Ákveðið var að fylgja ekki þeirri reglu nefnda Alþingis að bjóða til fundar fulltrúum hagsmunaaðila, en þeir höfðu þó sama aðgang að ráðinu og aðrir, gátu sótt fundi þess og lagt fram óskir, fyrirspurnir og ábendingar. Þetta var mikilvægt til að tryggja, að allir sætu við sama borð, en sérhagsmunahópar á Íslandi hafa ekki vanizt því. Fulltrúar þeirra gáfu sig ekki fram við Stjórnlagaráð.
Enn heyrast ábendingar um einstök efnisatriði frumvarpsins frá fólki, sem hirti ekki um að gefa sig fram, meðan vinnan stóð yfir. Þær eru of seint fram komnar. Frumvarpinu var lokað, þegar það var afhent forseta Alþingis 29. júlí 2011. Þjóðin kýs um frumvarpið 20. október. Aldrei fyrr hefur kjósendum gefizt færi á að slá fleiri keilur í einu kasti: jafnt vægi atkvæða, auðlindir í þjóðareigu, frjáls aðgangur að opinberum upplýsingum, beint lýðræði, óspilltar embættaveitingar, traust valdmörk og mótvægi – allt þetta á einu bretti og meira til. Kjósum. Spúlum dekkið.