20. október
Þjóðin hefur fellt sinn dóm um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október tekur af tvímæli um, að tveir þriðju hlutar kjósenda (67%) styðja frumvarpið, 83% styðja auðlindir í þjóðareigu, 78% styðja persónukjör, 67% styðja jafnt vægi atkvæða, og 73% styðja beint lýðræði, svo að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna geti krafizt þess, að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Niðurstaðan getur varla skýrari verið.
Ekkert af þessu þarf að koma á óvart. Frumvarp Stjórnlagaráðs er sprottið af þjóðfundinum 2010. Þjóðfundurinn speglaði þjóðarviljann og lagði línurnar um anda og áherzlur nýrrar stjórnarskrár og um inntak nokkurra helztu ákvæða hennar svo sem um auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða, persónukjör og beint lýðræði. Hví skyldi þjóðin snúast gegn frumvarpi, sem er sprottið af henni sjálfri? Hví skyldi fólkið í landinu snúast gegn sjálfu sér?
Afstaða kjósenda til ýmissa helztu ákvæða frumvarps Stjórnlagaráðs hefur legið fyrir um langa hríð. DV kannaði hug stjórnlagaþingsframbjóðenda til þessara spurninga og margra annarra. Svör þeirra voru birt haustið 2010 og voru í fullu samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn var. Allir máttu vita, hvernig landið liggur. Enginn þurfti að ganga að því gruflandi. Hér er e.t.v. að finna ástæðuna til þess, að engar skoðanakannanir voru birtar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Kannski sáu fylgjendur frumvarpsins ekki ástæðu til að láta gera könnun, ef þeir töldu sig vita, hverju kjósendur myndu svara. Ef andstæðingar frumvarpsins létu kanna málið, sáu þeir sér sennilega ekki hag í að birta niðurstöðurnar.
Allt þetta þarf að hafa í huga, þegar mat er lagt á málflutning þeirra, sem reyna nú að kasta rýrð á ótvíræðan dóm þjóðarinnar. Rök þeirra eru vandræðalega veik. Sumir þeirra segja fullum fetum, að þjóðaratkvæðagreiðslan sé „merkingarlaus“, að því er virðist án þess að skeyta um, að með því eru þeir að kasta blautri tusku framan í kjósendur. Tilraunir fáeinna alþingismanna til að slá eign sinni á ógreidd atkvæði þeirra kjósenda, sem sátu heima, dæma sig sjálfar og eru dregnar sundur og saman í háði hringinn í kringum landið, enda sýndi skoðanakönnun MMR í apríl 2012, að stuðningur við frumvarpið er hinn sami (2/3) meðal allra og reyndist vera í atkvæðagreiðslunni: þeir sem heima sátu skiptast með sama hætti og þeir sem kusu. Sumum andstæðinganna þykir eiga vel við að nota orðið „skrílræði“ um eitt lýðræðislegasta stjórnarskrárferli, sem saga heimsins kann frá að greina eins og erlendir sérfæðingar og aðrir hafa tekið eftir og auglýst. Þá eru ótaldar ýmsar rangfærslur um frumvarpið, eins og t.d. sú fullyrðing, að frumvarpinu sé ætlað að smeygja Íslandi inn í ESB. Þessu er þveröfugt farið. Gildandi stjórnarskrá frá 1944 veitir enga vörn gegn einhliða ákvörðun Alþingis um að leiða Ísland inn í ESB. Frumvarp Stjórnlagaráðs tryggir, að Ísland gengur því aðeins inn í ESB, að þjóðin samþykki ráðahaginn í bindandi þjóðaratkvæði og þá upp á þau býti, að framsal ríkisvalds sé ávallt afturkræft.
Þau sjónarmið, sem einstakir alþingismenn halda nú fram um æskilegar efnisbreytingar á frumvarpi Stjórnlagaráðs, hafa öll komið fram áður og verið rædd í þaula. Alþingi lá ásamt mörgum lögfræðingum og öðrum yfir frumvarpinu í átta mánuði, áður en það beindi spurningum sínum og ábendingum til Stjórnlagaráðs snemma á þessu ári. Í svari sínu til Alþingis lýstu fulltrúar í Stjórnlagaráði nokkrum valkostum um nýtt orðalag á fáeinum ákvæðum frumvarpsins til frekari skýringar, án þess að um verulegar efnisbreytingar væri að ræða. Þeir, sem halda nú fram nýjum tillögum, jafnvel eftir að þjóðin hefur kveðið upp sinn dóm, eru eins og verktakinn, sem birtist með nýtt tilboð löngu eftir að útboðsfresturinn er runninn út og ætlast til að vera tekinn alvarlega. Alþingi setti málið á sínum tíma í vel afmarkað ferli með skýrri tímatöflu. Því ferli þurfa alþingismenn og aðrir að una. Engum má líðast að brjóta reglurnar eða breyta þeim í miðjum leik. „Alþingi er á reynslutíma hjá þjóðinni“, sagði forsætisráðherra eftir atkvæðagreiðsluna. Slík auðmýkt gagnvart fólkinu í landinu á vel við eins og sakir standa.
Barátta andstæðinganna gegn nýrri stjórnarskrá, jafnvel eftir að þjóðin hefur lýst eindregnum vilja sínum til að ný stjórnarskrá nái fram að ganga, hljómar eins og eftirdrunur frá löngu liðinni tíð. Þegar lýðveldisstjórnarskráin var í smíðum, reyndu stjórnmálaforingjar að ná því fram, að Alþingi kysi forseta Íslands, ekki þjóðin. Þeim fannst vissara að hafa forsetann í vasanum. Þeir vildu halda áfram að hegða sér eins „ríki í ríkinu, … beygja ríkisvaldið og knésetja þjóðarheildina“, eins og Ólafur Jóhannesson, síðar forsætisráðherra, lýsti vandanum í tímaritinu Helgafelli 1945. Vönduð skoðanakönnun í Helgafelli, fyrsta vísindalega skoðanakönnunin á Íslandi, sýndi þó svart á hvítu, að 70% þjóðarinnar vildu þjóðkjörinn forseta og aðeins 20% vildu þingkjörinn forseta. Stjórnmálaforingjarnir létu undan. Þjóðin fékk að ráða för með dyggum stuðningi Sveins Björnssonar ríkisstjóra, síðar forseta Íslands. Það þarf hún að fá að gera nú og eftirleiðis.