Sagan endurtekur sig
Þegar heimsstyrjöldin fyrri hafði staðið í bráðum fjögur ár veturinn 1918, sigruðu Þjóðverjar Rússa á austurvígstöðvunum og kúguðu þá til að gefa eftir fjórðunginn af landssvæðum sínum, m.a. Finnland, Eystrasaltslöndin og Úkraínu, og fjórðung mannfjöldans. Um vorið sóttu Þjóðverjar fram á vesturvígstöðvunum, en bandamenn – Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn – náðu að stöðva framsókn Þjóðverja aðeins 120 km frá París, sem er litlu lengri spotti en frá Reykjavík austur á Hvolsvöll.
Harka Þjóðverja gagnvart Rússum veturinn 1918 varð ásamt öðru til þess, að bandamenn beittu Þjóðverja sömu hörku í friðarsamningunum í Versölum í stríðslok. Þjóðverjar reiddust einkum því ákvæði samningsins, sem knúði Þjóðverja til að taka á sig ábyrgð á styrjöldinni. Þeir höfðu stofnað nýtt lýðveldi, Weimarlýðveldið, undir lýðræðislegum formerkjum strax að loknu stríði fyrir tilstilli bandamanna og höfðu vonazt til að fá að njóta þess framfaraskrefs við friðarsamningaborðið. Svo fór þó ekki. Fyrirgefningin reyndist ekki svo auðfengin.
Skálkarnir, sem höfðu hleypt af stað styrjöldinni, sem kostaði níu til tíu milljónir mannslífa, brugðust við eins og vant er með því að reyna að klína sökinni á aðra. Þeir kenndu þýzkum lýðræðissinnum um að hafa stungið þjóð sína í bakið. Talsmenn rýtingsstungukenningarinnar (þ. Dolchstosslegende) sögðust hafa haft sigur á vesturvígstöðvunum í hendi haustið 1918, en svikulir innlendir friðarsinnar hefðu stungið herinn í bakið með því að grafa undan einvaldsstjórninni heima fyrir. Kenningin festi rætur í hugum margra Þjóðverja og bjó í haginn fyrir Adolf Hitler og hyski hans.
Þessi saga rifjast upp nú, þar eð þeir, sem hrintu efnahagslífi Íslands fram af hengiflugi 2008, halda áfram reyna að klína ábyrgðinni á hruninu á aðra. Umsátrið – Fall Íslands og endurreisn, bók Styrmis Gunnarssonar fv. ritstjóra Morgunblaðsins frá 2009, má hafa til marks. Styrmir heldur því fram, að óvinveittir útlendingar hafi setið um Ísland og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafi ekkert til sakar unnið. Þessi kenning er tilhæfulaus eins og rýtingsstungukenningin frá 1918, enda sagði Styrmir í vitnisburði sínum fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA): „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt.“ Hann þekkir málið úr návígi.
Engum getur dulizt, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn bera höfuðábyrgð á hruninu með aukaaðild Samfylkingarinnar sem hafði setið í ríkisstjórn í hálft annað ár, þegar bankarnir hrundu. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn „seldu“ bankana einkavinum sínum, og vinirnir keyrðu bankana í kaf á mettíma. Meðan á þessu stóð, mokuðu bankarnir fé í stjórnmálaflokkana og í stjórnmálamenn, þar á meðal bæði formann og tvo varaformenn Sjálfstæðisflokksins svo sem lýst er í skýrslu RNA. Skýrslan vitnar skýrt um ábyrgðina með því m.a. að tilgreina sjö embættismenn og stjórnmálamenn, þar af fjóra hátt setta sjálfstæðismenn, sem kunni með vanrækslu sinni að hafa brotið lög. Aukaaðild Samfylkingarinnar felst m.a. í því að hafa látið það dragast fram í nóvember 2012 að samþykkja þingsályktun um rannsókn á einkavæðingu bankanna 1998-2003 og slíta síðan þinghaldi í marz 2013 án þess að skipa rannsóknarnefnd, svo að málið fyrnist. Í ljósi þessara málavaxta og annarra, sem þjóðin þekkir í þaula, er það makalaus óskammfeilni að kenna útlendingum um hrunið, og einnig vegna þess, að frændur okkar á Norðurlöndum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn björguðu Íslandi undan miklu stórfelldari hamförum, sem hefðu annars skollið á fólkinu í landinu af miklum þunga.
Ein afleiðing hrunsins er sú, að höfuðsökudólgarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og einnig að nokkru leyti Framsókn, daðra nú við þjóðrembu og reyna með upplognum ásökunum að kenna erlendum vinum og velgerðarmönnum Íslands um eigin ósvinnu og grafa þannig undan hagsmunum Íslands í útlöndum til að búa í haginn fyrir sjálfa sig. Þeir bíða þess nú þess með óþreyju að komast aftur í aðstöðu til að selja sínum mönnum bankana eftir kosningar. Þeir hafa ekkert lært. Þeir hafa ekki einu sinni beðizt afsökunar. „Enginn gekkst við ábyrgð,“ sagði Páll Hreinsson, formaður RNA.
Lýðræðisvaktin mun vinna gegn þjóðrembu á Alþingi. Lýðræðisöflin þurfa að standa saman sem einn maður gegn ágangi þeirra, sem láta sig ekki muna um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að telja sig þurfa að taka mark á úrslitum hennar.