DV
8. ágú, 2014

Argentína og Ísland

Efnahagsvandræði Argentínu verðskulda nú eins og oft áður athygli hér heima, þar eð löndunum tveim svipar saman. Vandinn nú er sá, að ríkissjóður Argentínu treystir sér ekki til að standa skil á skuldum sínum við erlenda lánardrottna og samdi því við þá um „klippingu“, sem kallað er, til að komast hjá greiðsluþroti. Samkomulagið felur í sér, að lánardrottnar geri sér að góðu að fá aðeins hluta skuldanna endurgreiddan og allir sitji við sama borð. Nokkrir vogunarsjóðir, sem eiga um 7% útistandandi krafna á ríkissjóð, höfnuðu samkomulagi. Þeir höfðuðu dómsmál, þar sem þeir heimtuðu fulla endurgreiðslu og engar refjar.

Til að styrkja samningsstöðu sína, efla traust og tryggja sér lægri vexti hafði Argentína fallizt á, að ágreiningi um samkomulagið mætti vísa til bandarískra dómstóla frekar en argentínskra. Vogunarsjóðir neyttu lags og unnu málið gegn Argentínu fyrir bandarískum dómstóli, sem úrskurðaði, að Argentínu bæri að endurgreiða sjóðunum til fulls. Hæstiréttur Bandaríkjanna neitaði að taka málið til umfjöllunar, svo að dómur undirréttar stendur óhaggaður. Skv. dóminum er ríkissjóði Argentínu óheimilt að greiða lánardrottnum í samræmi við samkomulagið, nema vogunarsjóðunum sé jafnframt endurgreitt til fulls. Því er ekki um eiginlegt greiðslufall Argentínu að ræða, heldur bann bandarísks dómstóls gegn því, að Argentína haldi samkomulagið.

Sumir kalla dóminn gegn Argentínu réttan, þar eð ekki sé að lögum hægt að neyða vogunarsjóði eða aðra til aðildar að samkomulagi, sem þeir kæra sig ekki um. Aðrir kalla dóminn rangan, þar eð hann muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir argentínsku þjóðina og fyrir margar aðrar þjóðir í skuldavanda. Þeir telja, að dómaranum hafi borið að taka mið af afleiðingum dómsins fyrir aðra, þar eð lög og rétt þurfi að skoða í víðu samhengi. Dómurinn sendir skýr boð til kröfuhafa um, að þeir geti að lögum heimtað fulla endurgreiðslu, og grefur undan þeim hætti, sem lengi hefur verið hafður á skuldaskilum landa í greiðsluerfiðleikum. Hingað til hafa bankar og aðrir lánardrottnar skuldugra ríkja jafnan sýnt skilning á þeirri skoðun, að ekki er hægt að leggja þyngri skuldabyrði á nokkurt land en það getur borið. Vogunarsjóðirnir, sem heimta fulla endurgreiðslu í Argentínu, sýna þessu sjónarmiði þó engan skilning, heldur einblína þeir á bókstaf laganna. Umtalsverður hluti skulda ríkissjóðs Argentínu varð til í tíð herforingjastjórna, sem kjósendur og skattgreiðendur í landinu geta ekki talizt bera neina ábyrgð á.

Þessi Argentínusaga á erindi við Íslendinga af þrem höfuðástæðum. Í fyrsta lagi fylgir því ábyrgð að stofna til fjárskuldbindinga í útlöndum í stórum stíl, einkum ef svo hefur verið búið um hnútana, að hægt sé að skjóta ágreiningi vegna uppgjörs til erlendra dómstóla, þar sem þekking á innlendum staðháttum kann að vera takmörkuð. Þessi hætta hefur ágerzt með hnattvæðingu laga og réttar, sem kallar á enn meiri varkárni en áður. Ríki, sem tapar dómsmáli erlendis gegn erlendum kröfuhöfum, á yfir höfði sér kyrrsetningu erlendra ríkiseigna, jafnvel kyrrsetningu gjaldeyrisforða seðlabankans, nema sérstakar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar.

Í annan stað fylgir því ábyrgð að leyfa hagstjórn að reka á reiðanum og stjórnmálaspillingu að festa rætur. Verðbólgan í Argentínu hefur að sönnu verið meiri en hér heima að undanförnu sem endranær, eða 14% á ári þar frá aldamótum á móti 5% hér. Og spillingin er enn meiri þar en hér. Skv. skýrslu Gallups frá 2013 telja 76% Argentínumanna spillingu vera útbreidda í argentínskum stjórnmálum á móti 67% hér heima. Það er bitamunur en ekki fjár. Eduardo Duhalde, fv. forseti Argentínu, sagði í viðtali við Financial Times, þegar hann tók við embætti 2001: ,,Stjórnmálaforusta landsins er sjitt (hans orð, ekki mitt, stafsetning skv. orðabók Menningarsjóðs), og ég tel sjálfan mig með.” Alþingi sýndi af sér svipaða hreinskilni, þegar það ályktaði einum rómi 2010, að „taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega“.

Í þriðja lagi bera argentínskir kjósendur ekki ábyrgð á þeim hluta efnahagsvanda Argentínu, sem rekja má til einræðisstjórna fyrri tíðar. Álitamál er, hvort svipað megi segja um íslenzka kjósendur, sem hafa kosið til Alþingis skv. hlutdrægum kosningalögum, sem tveir þriðju hlutar kjósenda höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012. Alþingi, sem endurspeglar ekki þjóðarviljann vegna misvægis atkvæðisréttar í krafti bjagaðra kosningalaga, getur ekki vænzt þess að njóta trausts meðal kjósenda. Lausn vandans liggur fyrir. Hún felst í jöfnu vægi atkvæða með persónukjöri og auknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og var samþykkt af kjósendum lið fyrir lið 2012, en Alþingi heldur henni í gíslingu.