Að hlera síma
Ómar Ragnarsson fréttamaður sagði nýlega á Facebook: „Ég hef nokkrum sinnum lýst yfir rökstuddum grun um að sími minn hafi verið hleraður að minnsta kosti frá árinu 2005 án þess að það virðist hreyfa við nokkrum manni, að við búum í slíku þjóðfélagi.“ Tilefni ummæla Ómars var örleiðari Jónasar Kristjánssonar ritstjóra á jonas.is um störf Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili. Í ráðherratíð Ögmundar fékk fólkið í landinu engar nýjar upplýsingar um símahleranir á fyrri tíð, þótt fyrir liggi á mörgum heimilum rökstuddur grunur, sem jaðrar við fullvissu um ólöglegar hleranir, auk lítt dulbúinna játninga úr hópi gerenda. Ég þekki marga, sem segjast handvissir um, að símar þeirra voru ólöglega hleraðir. Sumir hafa lýst þessari sannfæringu í opinni dagskrá á Facebook. Ef símar voru ólöglega hleraðir af pólitískum ástæðum, þá er rétta spurningin þessi: Hvenær var hætt að hlera?
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 1. júní 2008 segir svo:
„Nú vill Kjartan Ólafsson [fv. ritstjóri Þjóðviljans] að hann og aðrir verði beðnir afsökunar á símahlerunum þessara ára. Gott og vel. En það vill svo til að það er annað fólk í þessu landi, sem vill fá skýr og ótvíræð svör við öðrum spurningum. Það hafa komið fram traustar upplýsingar um tengsl sósíalista við Sovétríkin, Austur-Þýzkaland og önnur ríki í Austur-Evrópu. En það mál hefur aldrei verið hreinsað upp, hvorki að því er varðar pólitísk samskipti né fjárhagsleg samskipti. … Úr því að Kjartan Ólafsson vill fá afsökunarbeiðni vegna símahlerana eigum við þá ekki öll, stríðsmenn kalda stríðsins, að taka höndum saman og óska eftir því að öll gögn verði lögð á borðið? … Það eru ekki margir Íslendingar lifandi, sem þekkja þessa sögu vel. Einn þeirra, sem þekktu hana frá sjónarhóli vinstri manna, var Ingi R. Helgason lögfræðingur, sem var áratugum saman í innsta kjarna Sósíalistaflokksins, alveg eins og Kjartan Ólafsson. Síðustu árin, sem Ingi lifði, fóru fram nokkur vináttusamleg samtöl á milli hans og ritstjóra Morgunblaðsins, þar sem Ingi var hvattur til að segja söguna alla. Þau samtöl komust það langt að Ingi sagði að tæki hann slíka ákvörðun mundi hann segja þá sögu hér á síðum Morgunblaðsins. Úr því varð ekki því miður. Er Kjartan Ólafsson tilbúinn til þess? … Það væri þá kannski hægt að sjá til þess að sambærilegt framlag kæmi úr hinum herbúðunum! Það hefur litla þýðingu að taka eitt mál út úr eins og símahleranir. … Það er ekki fráleitt að ætla, að þeir sem nú deila um símahleranir og önnur mál þeim tengd eigi eftir að ganga saman í einni fylkingu gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og hver veit nema Kjartan Ólafsson og höfundur þessa Reykjavíkurbréfs haldist þá í hendur!“
Þetta getur varla skýrara verið. Höfundur bréfsins er í reyndinni að segja (ég lýsti þessu í Fréttablaðinu 5. júní 2008): „Við brutum af okkur, gott og vel, og við skulum játa það á okkur gegn því, að þið sviptið þá einnig hulunni af ykkar afbrotum, og síðan göngum við saman syngjandi inn í sólarlagið í sameiginlegri baráttu gegn inngöngu Íslands í ESB.“ Samskipti sósíalista við sovétvaldið voru að margra dómi brotleg (gegn gjaldeyrislögum o.fl.), eins og fv. ritstjóri Morgunblaðsins veit vel, þótt yfirvöld kysu að leiða málið hjá sér líkt og ýmis önnur meint afbrotamál með stjórnmálaívafi. Með því að leggja símahleranir hjá andstæðingum Sjálfstæðisflokksins að jöfnu við meint brot sósíalistanna og bjóða kaup kaups hefur ritstjórinn í rauninni játað – líkt og hann hefur nýlega játað að hafa „safnað upplýsingum“ um meinta andstæðinga flokksins.
Í bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings Óvinir ríkisins (2006) er greint frá löglegum símahlerunum skv. dómsúrskurði í sex skipti frá 1949 til 1968. Höfundur Reykjavíkurbréfsins er í tilvitnuninni að framan augljóslega ekki að fjalla um löglegar hleranir, enda hafði bók Guðna nokkru fyrr flett hulunni af þeim. Því hlýtur ritstjórinn að hafa átt við ólöglegar hleranir án dómsúrskurðar. Fólkið í landinu þarf að fá að vita um meintar ólöglegar símahleranir fyrir og eftir 1968, enda liggja fyrir vitnisburðir um hleranir eftir 1992. Árni Páll Árnason, nú alþingismaður, óskaði formlega eftir heimild utanríkisráðherra Framsóknar 2006 til að greina lögreglunni frá vitneskju sinni um málið. Ráðherra synjaði honum leyfisins. Árna Páli entist ekki allt síðasta kjörtímabil 2009-2013 til að ítreka ósk sína við nýjan utanríkisráðherra úr eigin flokki til að upplýsa málið. Réttar upplýsingar um meint ítrekuð brot gegn lögvarinni friðhelgi einkalífs andstæðinga Sjálfstæðisflokksins eiga ekki að vera verzlunarvara.
Lögin eru skýr. Þagnarskylda lögreglumanna og símamanna snýr aðeins að löglegum hlerunum. Þagnarskyldan er m.ö.o. háð því, að um lögmæta almanna- eða einkahagsmuni sé að tefla. Annars gildir þagnarskyldan ekki. Sé lögreglumaður í vafa, á hann að geta fengið þagnarskyldu aflétt hjá yfirmanni viðkomandi lögreglu, t.d. fyrir tilstilli innanríkisráðherra. Lögreglumönnum ber ekki skylda til að hylma yfir lögbrot, öðru nær. Ákvæði um vernd uppljóstrara í nýju stjórnarskránni, sem Alþingi heldur í gíslingu, er ætlað að létta undir með lögreglumönnum og öðrum, sem vilja helzt leysa frá skjóðunni.