Fréttablaðið
12. nóv, 2015

Hver hirðir rentuna?

Munurinn á söluverðmæti afurðanna sem auðlindir náttúrunnar gefa af sér á heimsmarkaði og framleiðslukostnaði heitir auðlindarenta. Tökum dæmi. Olíufarmur sem selst á eina milljón Bandaríkjadala kostaði kannski ekki nema 100 þúsund dali í framleiðslu. Rentan er þá afgangurinn eða 900 þúsund dalir. Takið eftir hlutföllunum. Rentan er iðulega margfalt meiri en framleiðslukostnaðurinn. Af þessu leiðir óbilgjarna ásókn í auðlindarentu.

Olíuríkin í Arabaheiminum eru einræðisríki öll með tölu. Er það tilviljun? Varla. Bandaríkin og Noregur voru rótgróin lýðræðisríki þegar olía fannst þar og urðu rentusókn því ekki að bráð. Lýðræðið laskaðist ekki, a.m.k. ekki í Noregi. Rússland er dæmi um land þar sem lýðræðið stendur höllum fæti m.a. vegna ásóknar óbilgjarnra manna í olíurentuna. Ísland sýnist vera á sömu leið. Hér er lýðræðið í uppnámi. Alþingi er að reyna að stela stjórnarskránni m.a. til að þóknast útvegsmönnum sem mega ekki til þess hugsa að réttur eigandi, fólkið í landinu, fái að njóta rentunnar af sameignarauðlind sinni í sjónum.

Íslendingar eiga sameiginlega tvær verðmætar náttúruauðlindir sem gefa af sér ríkulega rentu. Sjávarauðlindin er talin gefa af sér rentu sem nemur um 2% til 3% af landsframleiðslu eins og Indriði H. Þorláksson hagfræðingur lýsti á ráðstefnu í Háskóla Íslands í vor leið og birti síðan í prýðilegri ritgerð á vefsetri sínu. Þetta mat hans á fiskveiðirentunni rímar vel við fyrra mat Þjóðhagsstofnunar og annarra allar götur aftur í árdaga kvótakerfisins um miðjan 9. áratug síðustu aldar. Indriði bendir á að um 10% rentunnar falla réttum eiganda í skaut í gegnum smávægileg veiðigjöld frá 2002. Afgangurinn, 90% af rentunni, rennur til útvegsmanna sem hegða sér þótt fáir séu eins og ríki í ríkinu og leika á Alþingi eins og gítar.

Rentan sem sprettur af hinni höfuðauðlindinni, orkunni í iðrum landsins og vatnsföllum, er einnig umtalsverð. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur lýsti mati sínu á henni á sömu ráðstefnu og Indriði í vor leið og taldi hana nema um 1,5% til 2% af landsframleiðslu. Orkulindirnar hafa ekki dregið að sér yfirgangssama sérhagsmunaseggi líkt og sjávarútvegurinn. Þó hafa stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum gert út á orkuna með því að lofa kjósendum orkuverum í aðdraganda kosninga og veikt með því móti samningsstöðu Íslands gagnvart erlendum viðsemjendum um orkuverð. Orkuverðinu var því áratugum saman haldið leyndu fyrir eigandanum, fólkinu í landinu. Svo lágt var verðið að stjórnvöld töldu það ekki þola dagsbirtu.

Samanlagt verðmæti beggja auðlinda þjóðarinnar til sjós og lands liggur skv. mati Indriða H. Þorlákssonar og Sigurðar Jóhannessonar á bilinu 67% til 90% af landsframleiðslu. Ef við förum bil beggja jafngildir mat þeirra um 20 mkr. eignarhlut á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Við þessa tölu þyrfti að bæta mati á verðmæti víðerna í náttúru Íslands sem dregur nú að landinu erlenda ferðamenn sem aldrei fyrr.

Eftir því sem kjósendur gera sér gleggri grein fyrir málinu og umfangi þess eykst stuðningur almennings við réttláta skiptingu auðlindarentunnar. Í þessu ljósi þarf að skoða stuðning 83% kjósenda við ákvæði um auðlindir í þjóðareigu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá 2012. Í þessu ljósi þarf einnig að skoða aðför Alþingis að lýðræðinu í landinu í þeim augljósa tilgangi að hafa arðinn af sjávarauðlindinni af réttum eiganda.

Þessar tölur um verðmæti auðlindanna, auðlindarentuna og skiptingu hennar eru meðal mikilvægustu hagtalna og ættu því að vera aðgengilegar á vefsetri Hagstofu Íslands. Þar er þessar tölur þó hvergi að finna heldur þurfa menn að grafa þær upp úr gögnum hagfræðinga utan stjórnsýslunnar. Þjóðhagsstofnun birti þessar tölur á sinni tíð og var lögð niður.

Í bindandi Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 sem Íslendingar og flestar aðrar þjóðir heims hafa undirritað og fullgilt segir í fyrstu grein (í þýðingu utanríkisráðuneytisins): „Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum…“ Hvorki erlendum mönnum né innlendum leyfist því að sölsa auðlindirnar undir sig. Þess vegna m.a. hefur norska ríkið leyst til sín fyrir hönd skattgreiðenda um 80% af olíurentu Norðmanna frá öndverðu.

Í drögum að nýrri stjórnarskrá Færeyja segir svo í íslenzkri þýðingu: „Við nýtingu auðlinda skulu stjórnvöld annaðhvort innheimta auðlindagjald eða tryggja öllum jafnræði til nýtingar.“ Og síðan: „Arður af landi og fiskimiðum sem ekki eru í einkaeign er auðlind og eign fólksins.“ Sem sagt: Þjóðin á auðlindirnar og tekur gjald fyrir afnot þeirra eða tryggir öllum jafnan aðgang að þeim. Við sitjum öll við sama borð. Þetta er inntakið í ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu sem 83% kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 og Alþingi er enn að reyna að drepa á dreif.

Ný ríkisstjórn jafnaðarmanna, Þjóðveldisflokksins og Framsóknar í Færeyjum hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu þar um nýju stjórnarskrána 2017. Vonandi reynist lögþingið í Færeyjum þjóð sinni betur en Alþingi hefur reynzt.