Fréttablaðið
26. maí, 2016

Lýðræði undir álagi

Grikkland gengur aftur, vagga lýðræðisins.

Aristóteles, gríski heimspekingurinn (384-322 f.kr.), lýsti kostum lýðræðis sem hann taldi þó ekki endilega vera skástu stjórnskipun sem völ væri á, ólíkt Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands löngu síðar. Lýðræði hefur einnig galla, sagði Aristóteles, einkum þann galla að fátæklingar eru mun fleiri en auðmenn og geta því beitt vægi atkvæða til að sölsa undir sig eignir auðmanna innan ramma laganna. Þessa hættu er hægt að girða fyrir, sagði Aristóteles, með því að halda misskiptingu innan hæfilegra marka og draga þannig úr freistingu fátæklinga til að rísa upp gegn ríku fólki.

James Madison (1751-1836), einn af höfundum bandarísku stjórnarskrárinnar frá 1787, var sama sinnis og Aristóteles um kosti og galla lýðræðis, en Madison lagði fram aðra lausn vandans. Lausn hans fólst í að treysta eignarréttinn og tryggja auðmenn með því móti gegn atlögum fátækara fólks á vettvangi stjórnmálanna. Fyrir þessu var séð í stjórnarskránni m.a. með því að fela fylkisþingunum að skipa öldungadeildarþingmenn, yfirleitt auðmenn, tvo frá hverju fylki, og hélzt sú skipan allar götur til 1913 þegar stjórnarskránni var breytt á þann veg að öldungadeildarþingmenn skyldu kosnir beinni kosningu eins og þingmenn í fulltrúadeildinni. Grunnurinn að auðræði hafði verið lagður.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur með tímanum hert tökin og heimfært mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar á fyrirtæki svo þau geta nú hömlulaust styrkt stjórnmálamenn og flokka. Rétturinn felldi þann dóm 2010 að hömlur gegn fjárframlögum til stjórnmálastarfsemi jafngildi skerðingu málfrelsis og brjóti því gegn stjórnarskránni. Tveir bræður, Charles og David Koch, hyggjast verja einum milljarði dala til að styrkja repúblikana í kosningunum þar vestra í haust. Sé miðað við kjörfylgi forsetaframbjóðanda repúblikana 2012, jafngildir fyrirhugaður fjárstyrkur Koch-bræða 2000 krónum á hvert atkvæði. Til samanburðar þágu Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hver um sig margfalt hærri fjárframlög á hvert atkvæði árin fram að hruni 2002-2006 skv. skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Noam Chomsky, bandaríski málfræðingurinn og rithöfundurinn, prófessor í Tækniháskólanum í Massachusetts (MIT), dregur málið saman á einfaldan hátt. Vandi lýðræðisins segir hann eins og Aristóteles er m.a. fólginn í freistingu fátækra til að beita valdi fjöldans gegn fámennum hópi auðmanna.

Lausn Aristótelesar var meiri jöfnuður. Þessi lausn endurómar nú t.d. í málflutningi Bernies Sanders, öldungadeildarþingmanns frá smáfylkinu Vermont sem berst fyrir útnefningu demókrata fyrir forsetakjörið í haust. Sanders var þar til nýlega úthrópaður í landi sínu fyrir að segjast vera lýðræðissósíalisti á evrópska vísu og er nú samt ekki nema hársbreidd frá Hvíta húsinu. Margar skoðanakannanir benda til að hann virðist enn líklegri en Hillary Clinton til að bera sigurorð af Donald Trump, væntanlegum frambjóðanda repúblikana, í kosningunum í haust. Hún hefur þó hlotið þrem milljónum fleiri atkvæði en hann í prófkjörum demókrata og það ræður úrslitum eins og eðlilegt er.

Lausn Madisons var minna lýðræði. Noam Chomsky lýsir vandanum vel í nýrri kvikmynd, Sálumessa bandaríska draumsins. Chomsky, einn gleggsti og harðskeyttasti þjóðfélagsgagnrýnandi Bandaríkjanna sl. hálfa öld, var löngum talinn vera á yzta jaðri stjórnmálanna en hann er nú líkt og Bernie Sanders kominn inn í miðja hringiðuna. Miðjan hefur skyndilega færzt til þeirra þar eð misskiptingin og meðvirkni stjórnmálastéttarinnar gengu skyndilega fram af fólki. Chomsky lýsir ásælni fyrirtækjanna og auðstéttanna sem ágengu varnarviðbragði við auknum réttindum blökkumanna og kvenna eftir 1960, háværari kröfum um umhverfisvernd, mótmælum gegn styrjöldinni í Víetnam o.fl.

Við sjáum sömu teikn á lofti hér heima. Ísland á jafnvel enn frekar en Bandaríkin í vök að verjast fyrir árás taumlausrar græðgi á grunnstoðir samfélagsins. Hvergi annars staðar ágerðist misskipting í líkingu við þróunina hér heima árin fram að hruni eins og Stefán Ólafsson prófessor hefur lýst öðrum betur. Hvergi annars staðar nema í Rússlandi bjuggu stjórnvöld til nýja stétt auðmanna sem hafa öll ráð í hendi sér, auðsveipa stjórnmálaflokka á fóðrum og nú m.a.s. eigin forsetaframbjóðanda, einn með öllu. Nöfn 600 Íslendinga er að finna í Panama-skjölunum ásamt nöfnum 51 Dana þótt Danir séu nærri 15 sinnum fleiri en Íslendingar.

Og hvergi nema á Íslandi rembist ólögmætt þjóðþing – kjörið 2013 skv. kosningalögum sem tveir þriðju hlutar kjósenda höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 – við að grafa undan lýðræði með því að humma fram af sér staðfestingu nýrrar stjórnarskrár.