Stjórnarskrá handa sjálfstæðu Grænlandi
Fjögur Evrópulönd eru og hafa lengi verið í sjálfstæðishugleiðingum: Færeyjar, Grænland, Katalónía og Skotland. Grænland sker sig úr að því leyti að þar er einhugur á þingi um að landið þurfi að taka sér fullt sjálfstæði frá Dönum líkt og Íslendingar gerðu 1944. Allir flokkar á þinginu í Nuuk telja að heimastjórnin sem 70% kjósenda ákváðu að taka sér 1979 dugi ekki lengur. Ekki er vitað hvernig kjósendur myndu greiða atkvæði um fullt sjálfstæði væru þeir spurðir, en ætla má að einhugur allra flokka á þingi sé ávísun á vænan meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessu er ekki til að dreifa í Færeyjum og Katalóníu og á Skotlandi því þar takast á nokkurn veginn jafnstórar fylkingar þeirra sem aðhyllast sjálfstæði og hinna sem kjósa heldur óbreytt ástand.
Færeyingar hafa samið sér prýðilega stjórnarskrá sem hefur beðið þess í nokkur ár að vera borin undir þjóðaratkvæði og er nú aftur í deiglunni. Danska ríkisstjórnin hefur andmælt stjórnarskránni með þeim rökum að hún geri ráð fyrir fullu sjálfstæði sem Færeyingar hafi ekki enn getað komið sér saman um. Þetta virðist vera fyrirsláttur af hálfu Dana. Auðvitað er vandalaust að orða nýju stjórnarskrána svo að hún samrýmist óbreyttri stöðu Færeyja innan danska ríkjasambandsins líkt og íslenzka stjórnarskráin gerði frá 1874 til 1944. Á þetta hef ég bent lögmanni Færeyja í skriflegri athugasemd við frumvarpið. Lögmanninum bárust fleiri en 120 athugasemdir frá óbreyttum borgurum innan lands og utan. Sum erindin vara við tilraunum þingmanna til að úrbeina auðlindaákvæðið sem var prýðilegt í fyrstu gerð frumvarpsins eins og ég mun lýsa hér eftir viku.
Katalónar og Skotar vinna að því að semja nýjar stjórnarskrár sem sjálfstæðissinnar í löndunum telja snaran þátt sjálfstæðisbaráttunnar. Hugsunin er að sjálfstæðisyfirlýsingu þurfi að fylgja ný stjórnarskrá sem er öðrum þræði eins konar erindisbréf við inngöngu í samfélag sjálfstæðra ríkja. Sjálfstæðissinnar í báðum löndum líta til nýju stjórnarskrárinnar sem Alþingi á eftir að staðfesta hér heima sem fyrirmyndar varðandi bæði efnislegt inntak og aðferð við samningu. Lýðræði og valddreifing eru þeim ofarlega í huga eins og vænta má um lönd sem eru að reyna að brjótast undan yfirráðum Spánverja og Englendinga.
Þessi hugsun var einnig hugsuð hér heima 1944. Allir flokkar á þingi hétu því þá hátíðlega að ráðast strax í allsherjarendurskoðun stjórnarskrárinnar eins og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur lýst öðrum betur. Alþingi heldur þó áfram að svíkjast um líkt og það sé lamað af ótta við veldi útvegsmanna, veldi sem Alþingi bjó sjálft til með lögfestingu fyrstu fiskveiðistjórnarlaganna 1983 og flokkarnir og menn á þeirra vegum hafa mjólkað æ síðan. Upplýsingar Rannsóknarnefndar Alþingis um gríðarleg fjárframlög föllnu bankanna til stjórnmálamanna og flokka fram að hruni knýja á um að þingið skipi nýja rannsóknarnefnd til að kortleggja bein og óbein framlög fyrirtækja til stjórnmálamanna og flokka fyrr og nú svo fólkið í landinu fái að sjá hvernig landið liggur. Sam Rayburn, forseti neðri deildar Bandaríkjaþings 1940-1961 með stuttum hléum, sá forseti þingsins sem lengst hefur setið, geymdi þykka seðlavöndla frá olíugreifum í Texas í skrifborðsskúffu sinni til að gleðja samþingmenn sína þegar með þurfti. Varla var hann einn um það.
Aftur til Grænlands. Nefnd grænlenzkra þingmanna vinnur nú að því að semja stjórnarskrá handa Grænlandi, stjórnarskrá sjálfstæðs Grænlands. Þingið ætlar síðan að bera hana undir þjóðaratkvæði. Fyrir nefndarmönnum vakir einkum þrennt: Fullt sjálfstæði, varðveizla grænlenzkrar tungu og menningar og sjálfbær stjórn náttúruauðlinda í þágu grænlenzku þjóðarinnar. Grænlendingar geta átt von á að andstæðingar sjálfstæðs Grænlands í Danmörku og erindrekar þeirra reyni að dulbúa andstöðu sína með því að segja að á textanum séu lagatæknilegir meinbugir o.s.frv. Til að verjast slíkum áburði þurfa Grænlendingar að gæta þess að skýra mál sitt vel fyrir kjósendum og vekja jafnframt áhuga erlendra sérfræðinga á málinu frá byrjun því þeir munu áreiðanlega koma vandaðri stjórnarskrá Grænlands til varnar eins og þeir hafa gert á Íslandi.