Bylmingshögg?
Reykjavík – Það hefur verið lyginni líkast að fylgjast með þróun stjórnmála í Bandaríkjunum og Bretlandi undangengin ár. Trump forseti er kapítuli út af fyrir sig. Hann ber það utan á sér að hann er gangster eins og margir virtir og verðlaunaðir höfundar hafa vitnað um enda eru nú í gangi um 20 opinberar rannsóknir vestra á meintum lögbrotum hans fyrr og nú. Trump er samt ekki dæmi um hálfgildingsfasista sem var kjörinn til valda gegn ráðandi öflum eins og sumir kjósa helzt að lýsa honum. Sú lýsing á ekki við því Repúblikanaflokkurinn studdi Trump til valda og styður hann enn. Jan-Werner Müller, þýzkur prófessor í stjórnmálafræði í Princeton-háskóla, lýsir málinu vel í nýlegri bók og greinum.
Svipað á við um Bretland. Sigur Brexit-sinna í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016 um útgöngu Breta úr ESB var ekki dæmi um þjóðrembla sem höfðu sitt fram gegn ráðandi öflum. Sú lýsing á ekki við um Bretland þar eð Brexit-sinnar höfðu sigur með stuðningi áhrifaríkra forustumanna í Íhaldsflokknum. Þar á meðal er Boris Johnson fv. utanríkisráðherra sem stefnir nú að því að verða forsætisráðherra.
Þjóðremblar eða hálfgildingsfasistar hafa hvergi komizt til valda á eigin spýtur í okkar heimshluta síðustu ár heldur aðeins með öflugum stuðningi úr röðum þeirra sem uppreisnin beinist gegn. Heimsbyggðin horfir hissa og hrygg á þessa atburði, einnig Frakkar og Þjóðverjar. Bandaríkin og Bretland hafa trúlega aldrei áður frá lokum heimsstyrjaldarinnar 1945 notið minna álits meðal bandamanna sinna og vina.
Fræðimenn birta verk eftir verk þar sem þeir vara við uppgangi þjóðremblanna með ýmsum áherzlum, m.a. með skírskotun til áranna milli stríða, 1918-1939. Í bók sinni Hvernig lýðræði líður undir lok lýsir David Runciman prófessor í heimspeki í Cambridge-háskóla þeirri skoðun að lýðræði stafi e.t.v. meiri hætta af sinnuleysi almennings gagnvart gangsterum en af ofbeldisfullum öfgamönnum.
Ætla mætti að Íslendingar stæðu flestir á varðbergi gegn þeim öfgum sem æða nú áfram í nálægum löndum og ógna lýðræðinu. En þá bregður svo við að hér heima hefur hópur manna bundizt samtökum um að rísa gegn staðfestingu Alþingis á nýrri reglugerð ESB um orkumál, reglugerð sem hefur verið á dagskrá árum saman án nokkurs andófs af hálfu Íslendinga og leiðir nær sjálfkrafa af veru Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).
Um hvað snýst málið? Reglugerðinni er ætlað að renna styrkum stoðum undir sameiginlegan evrópskan orkumarkað líkt og EES-löndin hafa komið sér upp sameiginlegum vinnumarkaði, vörumarkaði o.s.frv. Regluverkinu er m.a. ætlað að tryggja að Íslendingar selji ekki orku sína undir réttu verði, þ.e. fullu markaðsverði. Ákvæðum um útboð við orkusölu er ætlað að tryggja hag rétts eiganda orkunnar þannig honum sé greitt markaðsverð fyrir orkuna hvernig sem útboði orkuvinnslunnar er háttað.
Og hver er réttur eigandi orkunnar? Hann er og verður íslenzka þjóðin um leið og nýja stjórnarskráin frá 2011 sem 67% kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 gengur í gildi.
Það er vitaskuld hagur okkar eigendanna að fá sem hæst verð fyrir orkuna alveg eins og það er okkar hagur að fá sem hæst verð fyrir fisk og selda ferðaþjónustu. Án útboðs myndast hætta á að óprúttnir milliliðir geti komizt yfir orku á undirverði og selt hana síðan áfram í eigin gróðaskyni með gamla laginu.
Baráttan nú gegn þriðja orkupakkanum vekur eftirtekt m.a. fyrir það að flestir sem hana heyja hafa aldrei séð neitt athugavert við svo að segja ókeypis afhendingu aflaheimilda til útvegsmanna. Þau hafa flest horft skeytingarlaus á Alþingi færa útvegsmönnum sameignarauðlindina í sjónum á silfurfati. Og nú bjóðast þau til að bjarga þjóðinni frá því að Alþingi tefli orkunni upp í hendur útlendinga sem er fráleit ásökun. Regluverkinu er þvert á móti ætlað að forða Alþingi frá því að tefla orkunni frá réttum eiganda á undirverði. Ísland gerðist aðili að EES 1994 gagngert til að deila fullveldinu með öðrum Evrópulöndum. Það reyndist farsælt framfaraspor.
Sum þeirra sem mæla gegn þriðja orkupakkanum kysu helzt að Ísland hyrfi úr EES en það á þó ekki við um þau öll. Haraldur Ólafsson formaður Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, segir í grein hér í blaðinu: „Það er auðvitað ekki útilokað að EES hafi fært Íslendingum verðmæti sem þeir hefðu ella ekki notið og sjálfsagt að skoða það … Það er ekki markmið Orkunnar okkar, eða annarra félaga sem undirritaður þekkir til, að segja upp EES-samningnum.“ Grein hans ber yfirskriftina „Greiðasta leiðin til að veita EES bylmingshögg“. Hana má skilja sem viðvörun um að innleiðing orkupakkans kunni að knýja á um uppsögn EES-samningsins.
Hvað skyldi annars þurfa til að greiða kristnitökunni bylmingshögg? Siðaskiptunum? Heimastjórninni? Lýðveldisstofnuninni?