• Sönglög

14. feb, 2025

Meyjarmissir


Sönglag við kvæði Stefáns Ólafssonar (1619-1688), forföður míns af kyni Austfjarðaskálda. Hann fékk þau boð til Kaupmannahafnar 1643-1648 að unnusta hans heima á Íslandi hefði gengið að eiga annan mann og orti þá þetta kvæði.

Björt mey og hrein
mér unni ein
á Ísa- köldu landi;
sárt ber eg mein
um sinnu rein
sviptur því tryggðabandi.

Það eðla fljóð
gekk aðra slóð
en ætlað hafði eg lengi,
daprast því hljóð,
en dvínar móð,
dottið er fyrra gengi.

Stórt hryggðar kíf
sem stála dríf
stingur mig hverju sinni,
það eðla víf
meðan endist líf
aldrei fer mér úr minni.

Það sorgar él
mitt þvingar þel
við þig að hlýt eg skilja,
þó finni eg hel
þá farðu vel
fagurleit hringa þilja.

 

Til er þjóðlag við kvæðið sem Eggert Stefánsson söng af mikilli og tilfinningaþrunginni ástríðu.

 

Hallbjörg Bjarnadóttir samdi og söng annað lag við kvæðið:

 

Eggert og Hallbjörg syngja bara fyrstu tvö erindin, en lagið mitt skilar öllum fjórum erindunum og hér er það á nótum (Sibelius, pdf) og í hljóðskjali.