Facebook
28. jan, 2025

Við Ellert

Ég hafði frá yngstu árum mikið dálæti á Ellerti B. Schram sem er nú nýlátinn hálfníræður að aldri. Fótboltinn var mér mikilvægur í bernsku eins og gengur, en þó ekki mikilvægari en svo að ég kaus heldur að vera í sveitinni hjá frændum mínum að Stóra Vatnsskarði í Skagafirði sex löng og sælurík sumur fram að tíu eða ellefu ára aldri þar sem heyskapurinn og önnur sveitastörf leyfðu fótboltanum að sitja á hakanum. Ég fylgdist þeim mun nánar með bæði vormótum og haustmótum á Melavellinum.
      Og þar fannst mér Ellert bera af öðrum leikmönnum í eigin liði, að ekki sé minnzt á lið andstæðinganna. Gullaldarlið KR var einstakt, allir liðsmenn voru í landsliðinu, samt ekki allir í einu. (Sjálfur var ég Þróttari; Dóri fisksali var þjálfarinn minn.) Yfirburðir Ellerts á vellinum héldust í mínum huga óskertir eftir að mótin voru flutt á mjúkt grasið í Laugardal 1959. Skallamörk Ellerts voru kærkominn vorboði líkt og lóan – eða fríspörkin, maður lifandi, sem hann skoraði oft úr af 30 metra færi eins og að drekka vatn.
      Mér var því mikil ánægja að því og upplyfting þegar leiðir okkar Ellerts lágu saman löngu síðar þótt á öðrum vettvangi væri. Við voru alllengi saman í sellu með nokkrum góðum samherjum og vinum og lögðum þar á ráðin um hvernig hægt væri að koma fiskveiðistjórninni í það horf að arðurinn af auðlindinni rynni í hendur réttra eigenda, fólksins í landinu. Ellert hafði þá verið þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn um alllangt skeið, 1971-1979 og aftur 1983-1987, og bar þar af flestum þingflokksbræðrum sínum og systrum að mér fannst líkt og á knattspyrnuvöllum æsku minnar.
      Hann naut sem þingmaður réttsýni sinnar og reynslu sem blaðamaður frá ungum aldri og síðar prýðilegur ritstjóri. Í endurminningabók sinni, Ellert, sem kom út 2020, vitnar hann undanbragðalaust um spillinguna sem hann þurfti að kljást við í Sjálfstæðisflokknum og þau ráð sem hann beitti með lagni til að vinna gegn henni. Ranglætið í fiskveiðistjórninni gekk fram af honum og átti sinn þátt í því að hann sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn og gekk til liðs við Samfylkinguna 2003 og sat á þingi fyrir hana 2007-2009.
      Okkur Ellert greindi á um stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007. Ég sagði við hann: Þið megið ekki gera þessa reginskyssu. Hann sagði: Annað er ekki hægt eins og landið liggur. Bomban sprakk árið eftir.
      Annars töluðum við mest um fótbolta og Melavöllinn þar sem tíu vindstig voru ekkert tiltökumál og stundum haglél. Ég spurði Ellert um leik Þróttar, að mig minnti, og gullaldarliðs KR þar sem Heimir var í markinu, Hreiðar og Bjarni Fel. í vörn, Garðar, Hörður Fel. og Sveinn á miðjunni og Örn, Gunnar Fel., Þórólfur, Ellert og Gunnar Guðmannsson í framlínunni. Þessi leikur líður seint úr minni mínu því hann fór nær allur fram innan markteigs hjá Þrótti, hvort heldur með eða undan vindi. En honum lauk samt með 1:0 sigri Þróttara.
      Ellert mundi þetta betur en ég: ”… sennilega hefur það verið Víkingur sem við töpuðum fyrir á Melavellinum (ekki Þróttur). Ég er búinn að fletta þessu upp og 4. maí 1961 spilaði KR við Víkinga (sem áttu varla nógu marga menn til að geta stillt upp ellefu manna liði) á Melavellinum og leikar fóru 0-1 fyrir Víking. Á þessum árum unnum við alla leiki gegn Þrótti.“
Ellert Schram var sigursæll í lífinu.
      Ég minnist hans með söknuði, þakklæti og hlýju.