Við Vimmi
Það var ekki tekið út með sældinni einni saman að eiga þrem árum eldri bróður, sem barði mann eins og fisk. En það vandist. Og það var ekki leiðinlegt. Ég man eftir fyrsta blaðinu, sem hann gaf út; ætli hann hafi ekki verið átta ára. Það hét Kvistur. Vimmi var fæddur blaðamaður eins og Þorsteinn Gíslason, afi okkar, sem var löngu dáinn. Til að greiða fyrir útgáfunni hafði pabbi keypt fjölritunarvél, mikla maskínu, sem gekk fyrir spritti: ég man ennþá eftir lyktinni. Ég fékk ekki að koma nálægt útgáfunni, heldur var mér falið – nei, mér var skipað! – að bera blaðið út til áskrifenda í prófessorabústöðunum, gott ef ég þurfti ekki einnig að afla áskriftanna, og rukka. Ég man ekki eftir því, að Kvistur hafi komið út nema í þetta eina sinn. Blaðið var fjórar síður og skartaði forsíðuleiðara eins og aldamótablöðin. Leiðarinn var svona:
Þorvaldur þrjótur,
það vita menn,
leiður og ljótur,
lifir þó enn.
Vimmi stofnaði einnig á þessum árum knattspyrnufélagið Rimmugýgi, sem strákarnir á Grímsstaðaholtinu kölluðu aldrei annað en remendí. Vimmi var í markinu. Fyrirliði, senter og stroffískytta var Óli Þorsteins, frændi okkar, fullu nafni Ólafur Þorsteinsson, síðar fyrirliði Víkings og viðskiptafræðingur. Gubbi var hægri fúlbakk. Hann hét fullu nafni Guðbjartur Ólafsson og varð síðar gott ljóðskáld; hann féll frá fyrir tvítugt. Vimmi var líka gott skáld:
Hann er eins og vorið,
hún er eins og blóm.
Hann býr í Istanbúl,
hún býr í Róm.
Ég sá Vimma aldrei á sjónvarpi, eftir að hann kom heim frá námi og byrjaði að láta að sér kveða hér heima, því að ég bjó í útlöndum þau ár. Ég komst að því löngu síðar, að tengdamóðir mín, sem fellur annars aldrei verk úr hendi, lagði allt frá sér, þegar hann birtist á skjánum, og hljóp þá inn í stofu til að sjá hann og heyra. Ég sá hann fyrst á sjónvarpi, þegar Ómar Ragnarsson fréttamaður birti fyrir nokkrum árum samantekt um Kröflumálið held ég það hafi verið – það var þegar Sjálfstæðisflokkurinn og hvað þeir heita nú aftur hinir flokkarnir ákváðu að byggja virkjun á virku eldfjalli fyrir norðan og höfðu enskan miðil með í ráðum – nema þarna sátu þeir kófsveittir saman í sjónvarpssal þeir Jón Sólnes, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, með þaulsmurða Pinochetklippingu, og Vimmi, sem hafði ekki greitt sér í hálfan mánuð að minnsta kosti, nema Vimmi saumaði svo mjög að Jóni, að honum varð venju fremur svarafátt. Svo, sagði Ómar, þegar sjónvarpsmyndavélarnar voru hættar að snúast, þá þerraði þingmaðurinn svitann af enni sínu og sagði vingjarnlega við Vimma: ,,Vilmundur minn, hvernig stendur á því, að þú lætur svona? – þú, sem átt svona prúðan föður.” Það stóð ekki á svari: ,,Afi var svona!”
Vimmi vissi það ekki þá, að báðir afar okkar voru svona. Ég vissi alltaf eins og Vimmi og við bræðurnir um afa Vilmund (hann hét fullu nafni Vilmundur Jónsson og var landlæknir og lifði fram yfir 1970), að hann hafði gefið íhaldinu inn og þeim hinum, í misstórum skömmtum, eftir því sem á þurfti að halda, og þess gerðist ekki ósjaldan þörf í þá daga. Hinu komst ég ekki að fyrr en löngu síðar, að afi Þorsteinn gaf hinum afanum ekkert eftir að þessu leyti framan af ævinni, nema síður sé, svo sem aldamótablöðin hans vitna um. Afi Þorsteinn blíðkaðist þó í samskiptum við andstæðinga sína með tímanum (það gerði afi Vilmundur einnig, þegar hann hætti afskiptum af stjórnmálum) og sat á friðarstóli mörg síðustu árin, sem hann lifði; hann dó 1938.
Ég á einhvern veginn ekki auðvelt með að sjá Vimma fyrir mér á friðarstóli. En hann var svo fjörugur, fyndinn og skemmtilegur, þegar sá gállinn var á honum, að hann hefði verið vís til að taka sér sæti einmitt þar – um miðjan aldur þess vegna.