Hið íslenzka bókmenntafélag
2. jan, 1993

Hagkvæmni og réttlæti

Úr formála

Þessi bók, Hagkvæmni og réttlæti, er þriðja ritgerðasafn mitt og jafnframt hið síðasta í þessari syrpu. Fyrri söfnin tvö, Almannahagur og Hagfræði, stjórnmál og menning, komu út árin 1990 og 1991 með svipuðu sniði og þessi bók, einnig á vegum Hins íslenzka bókmenntafélags. Þessum þrem bókum er ætlað að mynda eina heild. Þær fjalla í raun og veru allar um sama efni: hagfræði og íslenzk efnahagsmál í alþjóðlegu samhengi, en með ýmsum blæbrigðum þó. Hér er enn sem fyrr lögð áherzla á að útmála efnahagsvanda íslenzku þjóðarinnar fyrir lesandanum. Hjá því verður ekki komizt að fjalla um leið um ýmsar veilur í hagstjórn og hagstjórnarfari á Íslandi mörg ár aftur í tímann og um afleiðingar efnahagsstefnunnar og ýmissa skipulagsbresta í efnahagslífinu og landsstjórninni fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu. Ég hef sagt það áður og segi það enn: heimabakaður efnahagsvandi þessarar þjóðar er alvarlegur — svo alvarlegur, að orðið kreppa á ef til vill betur við um ástandið nú. Lífskjör almennings hér heima hafa haldið áfram að dragast aftur úr kjörum fólks í nálægum löndum mörg ár í röð eða allar götur síðan 1988. Enn sér ekki fyrir endann á því. Höfuðtilgangur bókarinnar er að bregða birtu á þennan vanda og benda á vænlegar leiðir til úrbóta.

Köflum bókarinnar er skipt í fimm bálka eftir efni og innbyrðis samhengi, en hver kafli er þó sjálfstæður, þannig að lesandinn getur í rauninni lesið kaflana í hvaða röð sem er. Fyrsti bálkurinn heitir sjór og veiði. Þar er reynt að setja stefnu stjórnvalda í sjávarútvegsmálum í samhengi við aðra mikilvæga þætti efnahagsstefnunnar, svo sem í ríkisfjármálum, landbúnaðarmálum og gengismálum, og gera um leið grein fyrir þeim hagkvæmnis- og réttlætissjónarmiðum, sem hugmyndin um veiðigjald hvílir á. Næsti bálkur fjallar um erlendar skuldir, vinnumarkaðsmál og gengi krónunnar. Þar er reynt að rekja samhengið á milli ískyggilegrar skuldasöfnunar þjóðarinnar erlendis á síðustu árum og þeirrar efnahagsstefnu, sem fylgt hefur verið um langt skeið. Þetta leiðir röksemdafærsluna enn og aftur að skipulagsmálum atvinnuveganna, ekki aðeins sjávarútvegs, heldur líka landbúnaðar, og einnig að skipulagsvandanum á vinnumarkaðinum, þar sem laun eru ákveðin í samningum á milli nokkurra forustumanna verklýðsfélaga og vinnuveitenda án fulls tillits til framboðs og eftirspurnar á þessum mikilvæga markaði. Þetta fyrirkomulag er ein af höfuðorsökum atvinnuleysisins í Evrópu og einnig hér heima.

Þriðji bálkurinn fjallar um einkavæðingu og Evrópumál. Þar er annars vegar sagt frá sölu ríkisfyrirtækja í hendur einstaklinga og einkafyrirtækja í Austur-Evrópu í tengslum við umskiptin frá miðstjórn til markaðsbúskapar þar eystra og frá þeim almennu efnahagssjónarmiðum, sem búa að baki fyrirhugaðri sölu ríkisviðskiptabankanna hér heima eins og víða erlendis. Hins vegar er fjallað í þessum bálki um vanda okkar Íslendinga andspænis Evrópubandalaginu í ljósi þeirrar staðreyndar, að allar samstarfsþjóðir okkar í EFTA hafa nú sótt um aðild að bandalaginu. Þarna eru reifaðir kostir þess og gallar að ganga eða ganga ekki í Evrópubandalagið ásamt hinum EFTA-þjóðunum á næstu árum.

Í fjórða bálkinum vendi ég mínu kvæði í kross og segi lesandanum sögur úr ýmsum heimshornum: frá Rússlandi, Albaníu, Ítalíu, Argentínu og Nýja-Sjálandi. Þessum sögum er ætlað að fræða lesandann um efnahagsmál og ýmislegt annað í þessum löndum og jafnframt að skerpa skilning hans á eigin umhverfi hér heima. Fimmti og síðasti bálkurinn heitir hagfræði, skáldskapur og vísindi og er af enn öðru tagi. Þar er fjallað um vanda þess að vera hagfræðingur auk annars. Þarna er leitazt við að skýra það fyrir lesandanum, hvers vegna hagfræðingar eru yfirleitt hlynntir markaðsbúskap með sömu rökum og sama hugsunarhætti og náttúrufræðingar aðhyllast umhverfisvernd. Lokakaflinn fjallar um spillingu og um leiðir til að draga úr henni. Það er líka umhverfisvernd.

Hið íslenzka bókmenntafélag
Reykjavík 1993

 


Efnisyfirlit


I. Sjór og veiði

1. Hagkvæmni og réttlæti
2. Veiðigjald og hagur láglaunafólks
3. Skattlagning veiðileyfaviðskipta
4. Umskipti: Í áföngum eða einum rykk?
5. Veiðigjald og gengi
6. Sérhagur gegn samhag
7. Sjór og land


II. Skuldir, laun og gengi

8. Versnandi lífskjör og viðskiptahöft
9. Ábyrgðarleysi
10. Seðlabankinn í brennipunkti
11. Að ljúga um landbúnað
12. Færeyjar: Gæti þetta gerzt hér?
13. Vöxtur í skjóli skulda
14. Fjárlög og fordæmi
15. Vald og vinna
16. Á að fella gengið?
17. Forsendur fastgengisstefnunnar


III. Einkavæðing og Evrópumál

18. Einkavæðing í Austur-Evrópu
19. Bankar: Úr ríkiseigu í einkaeign
20. Ísland í Evrópu
21. Andspænis Evrópu


IV. Utan úr heimi

22. Rússland: Rjúkandi rúst
23. Albanía
24. Uppreisn á Ítalíu
25. Argentína: Hvað brást?
26. Fúnir innviðir
27. Atvinnuleysið í Evrópu
28. Nýja-Sjáland: Með allt á hreinu?


V. Hagfræði, skáldskapur og vísindi

29. Landbúnaður snertir okkur öll
30. Blöð, skáld og vísindi
31. Að vera frjálslyndur
32. Spilling


Ritdómur um bókina eftir Guðmund Heiðar Frímannsson, Háskólanum á Akureyri, birtist í Morgunblaðinu 21. desember 1993.

Dómur um Hagkvæmni og réttlæti