21. des, 1993

Dómur um Hagkvæmni og réttlæti

Menning – Bækur

Ritdómur eftir Guðmund Heiðar Frímannsson

Þorvaldur Gylfason: Hagkvæmni og réttlæti, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1993, 225 bls.

Það er ekki eins algengt og æskilegt væri, að fræðimenn íslenzkir riti greinar og bækur fyrir almenning um fræði sín. Þó eru á þessu gleðilegar undantekningar. Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, er ein þeirra. Hann hefur nú gefið út þrjár bækur um hagfræðileg efni, skrifaðar fyrir almenning. Nýjasta bókin kom út fyrir þessi jól.

Þorvaldur hefur nú í nokkur ár tekið til máls í blöðum um margvísleg þjóðfélagsmál, sérstaklega þau sem tengjast hagfræði. Málflutningur hans er kraftmikill og yfirleitt sannfærandi, fluttur á skýru máli, sem allir eiga að skilja. Stundum hefur hann haldið fram skoðunum, sem ekki eiga sérstaklega upp á pallborðið þá stundina, eins og til dæmis í Evrópumálunum. En það er allt eins líklegt að skoðanir hans reynist á traustari rökum reistar en þeirra stjórnmálamanna, sem hafa þurft að taka ákvarðanir í þeim málum og hafa verið í mikilsverðum atriðum ósammála Þorvaldi.

Þessi bók er safn af ritgerðum, sem hafa allar birzt áður í blöðum og tímaritum. Margar þeirra hafa sést á síðum Morgunblaðsins, aðrar hafa komið í vikublöðum og tímaritum um fjár- og efnahagsmál, sem hafa orðið til á síðustu árum hvert af öðru. Ýmsir lesendur kynnu að álykta af þessari staðreynd, að lítið sé varið í þessa bók, vegna þess að hún hafi öll birzt áður. En sú ályktun stæðist enga skoðun. Þessar greinar eru fjörlega skrifaðar, yfirleitt ágætlega rökstuddar og það er ekki mikið um hvimleiðar endurtekningar. Þær eru vottur um viðamikla og lifandi þekkingu höfundarins á viðfangsefni sínu, sem ætti að komast til skila til hvaða lesanda sem er.

Bókinni er skipt í fimm hluta. Í fyrsta hlutanum, sem nefnist sjór og veiði, er fjallað um fiskveiðistefnuna á Íslandi. Þessi hluti er samfelldur rökstuðningur höfundar við þá skoðun sína, að hér eigi að taka upp veiðigjald við stjórn fiskveiða. Það eru dregin fram hagkvæmnisrök og réttlætisrök til að styðja þessa skoðun. Í öðrum hluta er greint frá mörgum hliðum þess efnahagsvanda, sem Íslendingar eiga við að etja þessi árin. Þar eru nefnd landbúnaðarmálin, viðskiptahöft, staða Seðlabankans, halli á fjárlögum, vald verkalýðsfélaga, fastgengisstefna og gengisfellingar og samanburður við Færeyjar, þar sem hefur ekki orðið samdráttur, eins og hér, heldur beinlínis hrun. Þriðji hlutinn segir frá margvíslegum Evrópumálum. Þar er tekin fyrir einkavæðing í Austur-Evrópu, staða Íslands gagnvart Evrópu og hvort bankar eigi að vera fremur í ríkiseign en einkaeign. Fjórði hlutinn er um efnahagsmál vítt og breitt um heimsbyggðina, í Rússlandi, Albaníu, Suður-Ameríku og Nýja-Sjálandi og um atvinnuleysið í Evrópu. Í síðasta hluta bókarinnar er greint frá sambandi hagfræði við vísindi almennt, rætt um frjálslyndi, skyldur fræðimanna, spillingu og enn frekar um landbúnað.

Það er ekki einfalt að draga fram meginlínur í skoðunum og röksemdum höfundar. En kannski er skýrasta einkenni málflutningsins andstaða við íhlutun stjórnmálamanna í efnahagslíf á frjálsum markaði. Það kemur fram í margvíslegu samhengi í bókinni: í stuðningi höfundarins við sjálfstæði seðlabanka, röksemdum um landbúnaðarmál, hugleiðingum um Suður-Ameríku og Nýja-Sjáland, því sem sagt er um einkavæðingu og ýmsu fleiru. Mér virðist að flest dæmin, sem bryddað er upp á í bókinni, séu sannfærandi. Það er einfaldlega sennilegt, að afskipti Peróns af efnahagslífi Argentínu hafi skaðað Argentínumenn meira en nokkuð annað á þessari öld. Sömuleiðis er ljóst, að hrunið í Færeyjum stafar af of miklum og óskynsamlegum afskiptum stjórnmálamanna af fjárfestingum þar í landi. Og það er að minnsta kosti hluti skýringarinnar á þeim erfiðleikum, sem Íslendingar eiga við að glíma þessi árin í efnahagslífinu.

En spurningin, sem þessi skoðun vekur, er, hverjar eiga almennt talað að vera takmarkanir valds stjórnmálamanna? Það er engin leið fram hjá stjórnmálum í skipulegu nútíma samfélagi. Spurningin er einvörðungu, hvert á nákvæmlega að vera valdsvið stjórnmálamanna? Svarið við þeirri spurningu er alls ekki augljóst. En það er ljóst af ýmsum röksemdum þessarar bókar, að það er bráðnauðsynlegt að ákveðið hóf sé á valdi stjórnmálamanna.

En þessar hugleiðingar vekja spurningar um samband lýðræðis og efnahagsmála. Ef þjóð kýs yfir sig stjórnmálamenn, sem hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að hafa mikil afskipti af efnahagsmálum, er ekkert sem getur stöðvað slík afskipti. Nema að almenningur geri sér ljósa hættuna. Það getur tekið langan tíma fyrir afleiðingar ofstjórnar að koma í ljós og þá getur það kostað erfiðleika og fórnir að komast á réttan kjöl aftur.

Þorvaldur Gylfason tekur þá fræðimannsskyldu sína alvarlega að upplýsa almenning um undirstöðuatriði fræða sinna. Þegar hann gerir það setur hann mál sitt fram í ljósi skynsamlegra raka. En stjórnmálamenn verða því miður að taka tillit til fleiri hluta en skynsemi. Það þarf ekki annað en hlusta á suma fulltrúa á Alþingi Íslendinga til að átta sig á, að mannleg heimska er máttugt þjóðfélagsafl og þess vegna mega upplýstar skoðanir sín lítils stundum. Svo er það líka satt, að menn geta haft ólíkar skoðanir á sömu hlutum og margar þeirra byggðar á skynsamlegum rökum.

Það er margt í þessari bók, sem verðugt væri að ræða frekar. Til dæmis samband hagfræði við siðferðileg verðmæti, sem höfundur lætur í ljósi skoðanir á. En hér verður látið nægja að benda lesendum á þessa markverðu bók, sem allir áhugamenn um stjórnmál og hagfræði ættu að skoða og gaumgæfa. Bókin er vel upp sett, prentvillur fann ég engar, en það hefði hjálpað að hafa nafnaskrá aftast.

Morgunblaðið, 21. desember 1993.