Vöxtur útlána bankakerfisins 1976-2006
Mynd 9. Útlán bankakerfisins hér heima jukust með vaxandi hraða frá 1994 til 2001: vöxturinn var kominn upp í 20% árið 2001, en datt síðan niður í 3% árið eftir, þegar eftirspurn snarminnkaði og viðskiptahallinn hvarf eins og hendi væru veifað (sjá mynd 11), og fór svo aftur í fyrra horf 2004. Mikil útlánaþensla leiðir að vísu ekki fyrivaralaust til aukinnar verðbólgu, þar eð samkeppni er meiri í hagkerfinu en áður var. Bezta leiðin til að bægja hættunni frá og hægja á útlánaaukningu bankakerfisins er að auka aðhald í ríkisfjármálum, ekki endilega með niðurskurði með gamla laginu, heldur með uppskurði, þ.e. skipulagsbreytingum. Vel útfært veiðigjald hefði getað komið að góðu gagni í þessu samhengi að minni hyggju, og það myndi aukinn einkarekstur í heilbrigðis- og menntamálum einnig gera til langs tíma litið. Það eru litlar líkur til þess, að hægt sé að koma ríkisbúskapnum á réttan kjöl og hafa varanlegan hemil á útlánum bankakerfisins án veiðigjalds og nýrrar verkaskiptingar á milli ríkisins og einkageirans í heilbrigðis- og menntamálum. Annars er hætt við því, að við munum hafa verðbólgudrauginn vofandi yfir okkur enn um sinn. Svo er eitt enn. Það er segin saga, að mikilli útlánaþenslu getur fylgt vanskilahrina. Ef það gerist hér á næstu misserum (sjá mynd 90), ofan á allar afskriftirnar og útlánatöpin síðan 1987, þá verður erfiðara fyrir bankana að koma kostnaðinum yfir á aðra, skilvísari skuldunauta bankanna og sparifjáreigendur með auknum vaxtamun en það var árin eftir 1987, því að nú eru fjármagnshreyfingar milli landa að miklu leyti frjálsar. Mörg innlend fyrirtæki og jafnvel einstaklingar munu þá frekar flytja bankaviðskipti sín að einhverju leyti til útlanda en greiða háa vexti hér heima til að bæta bönkunum þann skaða, sem þeir munu hafa valdið sjálfum sér með fyrirhyggjulausum útlánum. Reyndar þyrfti ekki að flytja bankaviðskiptin til útlanda, ef erlendir bankar störfuðu á innlendum markaði í samkeppni við íslenzka banka svo sem tíðkast í flestum nálægum löndum og einnig í Austur-Evrópu. Viðskipti við útlönd geta átt sér stað ýmist hér eða þar.