Vöxtur peningamagns frá ári til árs 1976-2004
Mynd 10. Vöxtur útlána bankakerfisins (eða lánakerfisins í víðari skilningi) er allajafna skásti mælikvarðinn á stefnu stjórnvalda í peningamálum (sjá mynd 9). Þetta stafar af því, að stjórnvöld geta haft meiri hemil á vexti útlána bankakerfisins með ýmsum ráðum en t.d. á vexti peningamagns í umferð, þar eð peningamagn fer meðal annars eftir þróun gjaldeyrisforðans. Ástæðan er einföld: peningamagn er summa útlána bankakerfisins og gjaldeyrisforðans skv. skilgreiningu í reikningum bankakerfisins. Stjórnvöld geta ekki stýrt gjaldeyrisforðanum nema óbeint, svo að útlán bankakerfisins eru þá haldbezta stjórntækið í peningamálum. Vöxtur peningamagns í umferð er af þessum sökum lakari kvarði á aðhald eða undanhald í peningamálum en útlánaþensla — einmitt vegna þess, að aukning gjaldeyrisforðans vegna mikils útflutnings umfram innflutning eykur peningamagn í umferð að öðru jöfnu, án þess að stjórnvöld eigi endilega sök á því. Og þegar gjaldeyrisforðinn er á niðurleið (sjá mynd 4) vegna mikils innflutnings umfram útflutning, þá vex peningamagn hægar en ella að öðru jöfnu, þótt engu sérstöku aðhaldi af hálfu stjórnvalda sé til að dreifa. Myndin að ofan er til marks um þetta. Hún sýnir minni peningaþenslu en útlánaþenslu frá 1991 til 2001 (sbr. mynd 9), af því að gjaldeyrisforðinn var þá á niðurleið. En myndin sýnir eigi að síður greinileg merki þess, að peningamagn í umferð (M3) hefur síðan 1998 aukizt mun hraðar en árin næst á undan, einkum 2003. Vöxtur peningamagns síðan 1998 er umfram þann vöxt, sem virðist geta samrýmzt stöðugu verðlagi næstu misseri. Er þetta tifandi tímasprengja? Það er ekki alveg víst. Hitt er þó víst, að ofþensla útlána og peningamagns að undanförnu þrýstir á eftirspurn í hagkerfinu og þá um leið á laun, gengi og verðlag, og þá þurfa stjórnvöld að streitast á móti með tiltækum ráðum. Þegar peningavöxtur mælist í tveggjastafatölum sjö ár í röð, eins og verið hefur síðan 1998, þá hlýtur aukin verðbólga að fylgja aukinni eftirspurn, nema framboð vöru og þjónustu glæðist að sama skapi, og það verður að teljast frekar ólíklegt þrátt fyrir tæknivæðingu efnahagslífsins og aukna hagkvæmni í ýmsum greinum hér heima eins og annars staðar undangengin ár.