27. nóv, 2006

Vöxtur landsframleiðslu á mann á ári 1965-1990

Mynd 8. Árin 1965-1990 óx þjóðarframleiðsla á mann í Austur-Asíu að meðaltali um 6,7% á ári, á meðan framleiðsla á mann í OECD-löndunum jókst að jafnaði um 2,7% á ári og í Afríku um aðeins 0,7% á ári (og ekki nema 0,2% í Afríku sunnan Sahara). Þennan mikla hagvaxtarmun er hægt að rekja að talsverðu leyti til hagstjórnarstefnunnar, sem hefur verið fylgt í þessum löndum. Afríka hefur staðið í stað eða því sem næst að mestu leyti vegna þess, að ríkisstjórnirnar í löndum álfunnar hafa fylgt rangri efnahagsstefnu í veigamiklum atriðum. Þær hafa flestar fylgt stefnu, sem helgast af einræði, miðstjórn, markaðsfirringu, sérhagsmunadekri og spillingu í stað þess að leyfa lýðræði og heilbrigðan markaðsbúskap. Það er löngu liðin tíð, að hægt sé að kenna gömlum nýlenduherrum um ófarir Afríku. Með sama hætti er að miklu leyti hægt að rekja frábæran árangur Austur-Asíuþjóðanna til skynsamlegrar efnahagsstefnu, sem fólst einkum í því að efla sparnað og hagkvæma fjárfestingu, útflutning og menntun. Hagvaxtarmunurinn á Austur-Asíulöndunum og OECD-löndunum 1965-1990 felur það í sér, að tekjubilið á milli þessara tveggja svæða hefur mjókkað um meira en helming á aðeins aldarfjórðungi. Þjóðartekjur á mann hafa fimmfaldazt í Austur-Asíulöndunum, en þær hafa ,,aðeins“ tvöfaldazt í OECD-löndunum á sama tíma eins og hér heima. Þessi miklu umskipti hafa valdið sannkallaðri lífskjarabyltingu í löndunum í austri. Þjóðartekjur á mann í Hong Kong og Singapúr eru nú þegar komnar langt upp fyrir tekjur á mann hér heima á kaupmáttarkvarða Alþjóðabankans (World Bank Atlas, 1998). Þessi lönd voru bláfátæk fyrr á öldinni. Nú eru þau rík af eigin rammleik. Og nú vorar sums staðar um Afríku, því að þjóðirnar þar hafa tekið eftir árangri Asíulandanna. Asíulöndin eiga sum í erfiðleikum nú í kjölfar kreppunnar, sem hófst með gengishruni gjaldmiðilsins í Taílandi sumarið 1997, en þeim hefur flestum tekizt að rífa sig upp úr erfiðleikunum í skjóli róttækra efnahagsumbóta. Reynslan sýnir, að stórstígar framfarir geta verið skrykkjóttar. Asíulöndunum er lýst nánar í Viðskiptin efla alla dáð, 11.-13. kafla.