8. maí, 2006

Vinnutap vegna verkfalla 1995-2004

Mynd 34. Vinnumarkaður ýmissa OECD-ríkja hefur tekið stakkaskiptum undangengin ár. Bretland reið á vaðið eftir 1979, þegar ríkisstjórn Margrétar Thatcher réðst gegn trénuðu vinnumarkaðsskipulagi og lagði með því móti grunninn að þeim aukna sveigjanleika, sem hefur ásamt öðru dregið mjög úr atvinnuleysi á Bretlandseyjum og eflt hagvöxt. Nýja-Sjáland og Ástralía fylgdu á eftir og stokkuðu hressilega upp á vinnumarkaði þar suður frá, einkum Nýja-Sjáland. Frakkland hefur á hinn bóginn engu breytt enn á þessum vettvangi, að heitið geti, svo að mikið atvinnuleysi hefur náð að festa rætur í landinu. Norðurlöndin, þar á meðal Ísland, hafa þokazt í rétta átt, en hægt. Íslenzkur vinnumarkaður er að sumu leyti sveigjanlegri en vinnumarkaður annars staðar á Norðurlöndum. Vinnuafl er til að mynda hreyfanlegra á milli landshluta hér en þar, meðal annars vegna þess, að velferðarkerfið hér er ekki eins örlátt, svo að menn missa þá minna úr aski sínum heima fyrir, ef þeir flytja sig um set. Í Noregi og Svíþjóð þurfa menn stundum að fórna ýmsum áunnum réttindum (t.d. dagheimilisplássi fyrir börn), ef þeir flytja af einum stað á annan, og lenda þá aftast í biðröðinni á nýjum stað. Vinnumarkaðurinn er á hinn bóginn ósveigjanlegri að sumu öðru leyti hér heima en annars staðar um Norðurlönd. Myndin sýnir, að hér hafa tapazt hlutfallslega miklu fleiri vinnudagar en víða annars staðar skv. upplýsingum OECD. Vinnutap af þessu tagi virðist að öðru jöfnu líklegra á miðstýrðum og þar af leiðandi stirðum vinnumarkaði, eins og t.d. í Kanada og Finnlandi, en á frjálsum, lausum og liðugum vinnumarkaði, eins og t.d. í Bandaríkjunum, þar sem yfirleitt er samið um kaup og kjör í hverju fyrirtæki fyrir sig án íhlutunar verklýðsfélaga eða samtaka vinnuveitenda. Þetta er þó alls ekki einhlítt, því að Norðmenn og Svíar hafa tapað tiltölulega fáum vinnudögum vegna verkfalla þrátt fyrir umtalsverðan ósveigjanleika á vinnumarkaði þar í landi. Í Þýzkalandi og Japan (ekki sýnt á myndinni) var vinnutap af völdum verkfalla á hinn bóginn nánast ekki neitt á sama tíma.