2. des, 2007

Vinnustundir 2006

Mynd 106. Landsframleiðsla á mann segir ekki alla söguna um auðlegð þjóðanna, því að þær þurfa að hafa mismikið fyrir hlutunum og vinna því mislanga vinnuviku. Sumar þjóðir þurfa að leggja hart að sér til að ná endum saman, aðrar komast af með minni vinnu. Myndin sýnir, að starfandi Þjóðverjar, Hollendingar og Norðmenn unnu innan við 1.400 stundir að jafnaði 2006 og Austurríkismenn, Svisslendingar, Frakkar og Ítalar röskar 1.400 stundir, litlu minna en Svíar og Danir. Starfandi Bandaríkjamenn unnu á hinn bóginn 1.800 stundir að jafnaði líkt og Íslendingar, enn meira en Japanar. Eistar unnu röskar 2.000 stundir til jafnaðar. Staðtölur um vinnustundir eru að vísu ekki alveg ábyggilegar vegna ýmislegra vandkvæða við mat á kaffitímum og þess háttar, en hugsum okkur samt, að tölurnar, sem hagfræðingar við Háskólann í Groningen í Hollandi hafa safnað og raðað saman, séu réttar. Hvað veldur þá þessum mikla mun? Sumar þjóðir búa við ýmislega óhagkvæmni, sem knýr starfandi fólk til að vinna langa vinnuviku til að hafa í sig og á. Sumar þjóðir bera þyngri tekjuskattsbyrði en aðrar og vinna þá kannski minna þess vegna. Sumar búa við meira atvinnuleysi en aðrar, svo að allir eiga þá ekki kost á því að vinna eins mikið og þeir vilja. Sumar þjóðir eru kannski vinnusamari en aðrar inn við beinið. Þessar skýringar eiga trúlega við í ýmsum hlutföllum í ólíkum löndum. Íslendingar og Japanar þurfa á langri vinnuviku að halda til að mæta háu matarverði og ýmsum áþekkum búsifjum. Bandaríkjamenn þurfa einnig á mikilli vinnu að halda til að mæta ýmislegu og sumpart heimatilbúnu óhagræði. Sjá meira um málið í greininni Vinnan göfgar manninn — eða hvað?