27. apr, 2009

Viðskiptahallinn sem hlutfall af landsframleiðslu 1976-2010

Mynd 11. Mikill viðskiptahalli hefur einkennt efnahagslíf þjóðarinnar næstum allan lýðveldistímann. Þetta var eðlilegt framan af, því að gróandi þjóðarbúskapur þarf á miklum innflutningi að halda til ýmissa þarfa, jafnvel umfram útflutning, og þá verður að brúa bilið með lántökum að utan. Við höfum þó gengið lengra í þessa átt en góðu hófi gegnir, enda eru skuldir okkar við útlönd orðnar of miklar og skuldabyrðin að sama skapi of þung, enda þótt vextir séu nú lágir í útlöndum. Þar að auki höfum við ekki farið alls kostar vel með allt lánsféð, heldur varið því til óarðbærrar fjárfestingar í stórum stíl að undirlagi stjórnmálamanna, eins og allir vita. Erlendar langtímaskuldir þjóðarinnar ruku upp úr öllu valdi síðustu ár: skuldirnar jukust úr 50% af landsframleiðslu í árslok 1997 upp í 357% í árslok 2007 skv. upplýsingum Seðlabankans (sjá mynd 83). Þetta á þó ekki að þurfa að koma neinum á óvart, því að mikill viðskiptahalli er jafnan sjálfvirk ávísun á skuldasöfnun og yfirleitt einnig á gengisfall. Árið 2000 var mesta hallaár þjóðarbúsins síðustu tvo áratugi. Viðskiptahallinn minnkaði verulega 2001, eða niður í 4% af landsframleiðslu á móti 10% árið 2000, og hvarf nánast alveg 2002, en það stóð stutt, eins og myndin sýnir. Hallinn sló öll met 2006 . Og svo er eitt enn. Vextir á erlendum fjármálamörkuðum fara nú hækkandi. Þar eð næstum 90% af erlendum skuldum Íslendinga eru í erlendri mynt, munu vaxtagreiðslur af lánunum hækka um nálega 1% af landsframleiðslu fyrir hvert prósentustig vaxtahækkunar úti í heimi, og vextir þar hafa farið síhækkandi að undanförnu upp úr þeirri lægð, sem þeir höfðu verið í árin næst á undan. Með öðrum orðum: hækkun erlendra vaxta um eitt prósentustig eykur viðskiptahallann um 1% af landsframleiðslu að öðru jöfnu. Við þetta bætist, að gengið myndi þá trúlega gefa eftir, þ.e. falla, og vaxtabyrðin myndi þá þyngjast enn frekar og einnig endurgreiðslubyrðin, en á móti kæmu meiri útflutningur og minni innflutningur. Heildaráhrif yfirvofandi vaxtahækkunar erlendis og meðfylgjandi gengisfalls íslenzku krónunnar á viðskiptajöfnuð munu fara eftir því, hversu mikið gengið lækkar, þegar vextirnir hækka.