27. nóv, 2006

Verg þjóðarframleiðsla á mann og framleiðslugeta 1901-1998

Mynd 14. Slétti ferillinn sýnir verga þjóðarframleiðslu á mann á Íslandi eins og hún hefði verið, hefði meðalvöxtur hennar frá 1901 til 1998 haldizt samur og jafn allan tímann. Meðalvöxturinn nam  2,6% á ári að jafnaði þennan tíma á móti 1,9% í Danmörku til samanburðar. Það gerir röska tólfföldun þjóðarframleiðslu á mann á föstu verðlagi hér heima síðan um síðustu aldamót á móti ríflegri sexföldun í Danmörku. Þessi hagvaxtarmunur — 0,7% á ári — okkur í vil kann að virðast lítill, en hann hefur samt gert okkur kleift að saxa mjög á forskot Dana frá aldamótum. Slétti ferillinn slær máli á framleiðslugetu hagkerfisins alla öldina, þ.e. þjóðarframleiðslu á mann miðað við fulla nýtingu framleiðsluþáttanna. Hlykkjótti ferillinn sýnir verga þjóðarframleiðslu á mann eins og hún var á hverjum tíma. Takið eftir því, að þjóðarframleiðslan var undir framleiðslugetu þjóðarbúsins á kreppuárunum eftir 1930 og síðan langt umfram framleiðslugetu, þegar verðbólgan var mest á 8. og 9. áratugnum. Ofhitun hagkerfisins átti mikinn þátt í þessu ásamt ofveiði til sjós og oftöku erlendra lána. Hvort er skárra: að miða mat á framleiðslugetu þjóðarbúsins við meðalhagvöxt alla öldina eins og að ofan eða við meðalhagvöxt yfir skemmra tímabil, t.d. 1960-1987 eins og á mynd 13? Það fer eftir ýmsu. Nútímahagstjórn hélt ekki innreið sína á Íslandi fyrr en um 1960; það mælir með skemmri viðmiðuninni og meiri vexti framleiðslugetunnar, því að góð hagstjórn getur örvað hagvöxt. Langtímaþróun þjóðarbúskaparins ræðst þó einnig af ýmsu öðru en hagstjórn, þar á meðal innviðum og uppbyggingu efnahagslífsins, sem langtímaviðmiðun við alla öldina kann að lýsa betur en skemmri viðmiðunin við röskan aldarfjórðung eftir 1960. Kjarni málsins er þó sá, að báðar myndirnar, 13 og 14, gefa í grófum dráttum svipaða mynd af afstöðu framleiðslunnar og framleiðslugetunnar.