27. nóv, 2006

Verg landsframleiðsla á mann og framleiðslugeta 1960-1998

Mynd 13. Slétti ferillinn sýnir verga landsframleiðslu á mann á Íslandi eins og hún hefði verið, hefði meðalvöxtur hennar frá 1960 til 1987 haldið áfram eftir það. Vöxturinn nam 3,7% á ári að jafnaði þennan tíma. Það gerir fjórföldun landsframleiðslu á mann á föstu verðlagi þessi 39 ár. Þessi slétti ferill slær máli á framleiðslugetu hagkerfisins þennan tíma, þ.e. landsframleiðslu á mann við fulla nýtingu framleiðsluþáttanna, enda var full atvinna svo að segja allan þennan tíma. Hlykkjótti ferillinn sýnir verga landsframleiðslu á mann eins og hún var á hverjum tíma. Hlykkirnir lýsa hagsveiflunni. Sum árin er landsframleiðslan yfir framleiðslugetunni, svo sem á síldarárunum um miðjan 7. áratuginn og á verðbólguárunum fyrir og eftir 1980. Sum árin er landsframleiðslan aftur á móti undir getu, eins og t.d. þegar síldin hvarf á síðari helmingi 7. áratugarins og þegar ráðizt var gegn verðbólgunni og vextir voru gefnir frjálsir um miðjan 9. áratuginn. Frá árinu 1987 hefur efnahagsþróunin verið önnur. Þá hófst langt stöðnunarskeið, sem stafaði af því, að vöxturinn árin á undan hafði hvílt að nokkru leyti á fölskum forsendum: þar á meðal ofhitun hagkerfisins, ofveiði og oftöku erlendra lána. Þessu varð að linna, og af því hlauzt langvinnur samdráttur, svo að hagvöxtur á mann nam aðeins um 0,8% á ári frá 1987 til 1998. Það var ekki fyrr en 1996, að landsframleiðslan á mann komst aftur í fyrra horf frá 1987. Hefðu stoðirnar verið styrkari og hagkerfið liðugra og opnara, hefði hagvöxturinn frá 7., 8. og 9. áratugnum að réttu lagi átt að geta haldið áfram. Þá hefði hagkerfið getað fylgt slétta ferlinum nokkurn veginn eins og það gerði fram til ársins 1987, og þá væri landsframleiðslan á mann nú röskum þriðjungi meiri en hún er, en það varð ekki. Hagvöxtur á mann hefur verið 3,2% á ári að jafnaði, síðan botninum var náð árið 1993, eða hálfri prósentu minni en hann var að jafnaði 1960-1987. Við þurfum meiri, betri og varanlegri hagvöxt. Bezta leiðin til þess að örva hagvöxtinn er að efla sparnað og hagkvæma fjárfestingu, erlend viðskipti og menntun á öllum skólastigum. Þessu samhengi er lýst nánar í Viðskiptin efla alla dáð, 35. kafla, og einnig í Principles of Economic Growth.