14. sep, 2007

Vaxtamunur 1960-2007

Mynd 112. Hér er mynd, sem segir meira en mörg orð. Einn þeirra mælikvarða, sem helzt eru notaðir til að meta hagkvæmni í bankarekstri, er vaxtamunurinn, þ.e. munurinn á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum. Illa reknir og óráðdeildarsamir bankar þurfa að rukka skuldunauta sína um háa útlánsvexti og greiða sparifjáreigendum lága innlánsvexti, svo að vaxtamunurinn er þá mikill. Vel reknir og ráðdeildarsamir bankar geta boðið skuldunautum sínum lága útlánsvexti og sparifjáreigendum háa innlánsvexti, svo að vaxtamunurinn er þá lítill. Útlánsvöxtum er hér lýst með ársvöxtum af almennum óverðtryggðum skuldabréfum og innlánsvöxtum með ársvöxtum af almennum sparisjóðsbókum, sem einnig eru óverðtryggðar (sjá næstu mynd). Hér þarf ekki að greina nafnvexti frá raunvöxtum, því að verðbólguleiðrétting næði jafnt til innlánsvaxta og útlánsvaxta. Takið fyrst eftir því, að vaxtamunurinn var lítill árin 1960-71, eða 2,5% á ári að jafnaði. Það er undarlegt eftir á að hyggja, að rammpólitískt ríkisbankakerfi viðreisnaráranna skyldi ekki vera óhagkvæmara en svo. Þegar verðbólgan tók á rás eftir 1970 og raunvextir hríðlækkuðu, gróf hvort tveggja undan bönkunum með því að skerða innlán og veikja útlán, þar eð skuldunautar þurftu ekki lengur að standa í skilum nema að hluta. Vaxtamunurinn fór vaxandi nær allt tímabilið og mælist rösk 9% að meðaltali árin 1972-90. Mikill og vaxandi vaxtamunur þessi verðbólguár vitnar um mikla og vaxandi óhagkvæmni í bankarekstri í samræmi við reynslu annarra landa í svipuðum sporum. Þessi bankavandi var snar þáttur í fortíðarvandanum, sem frívæðingu efnahagslífsins eftir 1991 var ætlað að leysa, meðal annars með aðildinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og skárri hagstjórn, þ.e. minni verðbólgu. Mikill vaxtamunur var einn helzti hvatinn að einkavæðingu viðskiptabankanna, sem hófst 2003. Einkavæðingunni var ætlað að minnka vaxtamuninn, en það varð ekki eins og myndin sýnir. Vaxtamunurinn var rösk 13% að jafnaði 1991-2006, og hann jókst, eftir að bankarnir komust í einkaeign. Takið þó eftir því, að vaxtamunurinn á myndinni nær ekki yfir öll bankaviðskipti, langt frá því, og segir því ekki alla söguna um bankana. En myndin fangar samt þá staðreynd, að fjöldamargir viðskiptavinir bankanna, bæði heimili og smáfyrirtæki, búa við mikinn vaxtamun langt umfram þann mun, sem tíðkast í nálægum löndum. Af því og ýmsu öðru má ráða, að einkavæðing bankanna tókst ekki sem skyldi. Þess var ekki gætt að koma bönkunum í hendur hagsýnustu eigenda, sem völ var á, heldur voru bankarnir seldir á undirverði mönnum, sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu sérstaka velþóknun á og notuðu tækifærið til að raka saman fé handa sjálfum sér. Ekki var heldur um það hirt að laða erlenda banka hingað heim til að veita innlendu bönkunum aðhald og samkeppni. Þessu réði gamalgróin helmingaskiptaregla ríkisstjórnarflokkanna. Afleiðingin er sú, að bankarnir halda áfram að okra á mörgum viðskiptavinum sínum, enda þótt bankarnir hafi einnig veitt ódýru erlendu lánsfé hingað heim í stórum stíl, sem er langþráð framför. Eftir stendur, að mikill vaxtamunur afhjúpar djúpa bresti í bankamálum landsmanna.

Vaxtatölurnar á myndinni eru sóttar til Hagstofu Íslands; frumheimildin er Seðlabanki Íslands.