27. nóv, 2006

Útgjöld til menntamála á OECD-löndum 1996

Mynd 18. Myndin sýnir ríkisútgjöld til menntamála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu í OECD-löndum. Norðurlöndin raða sér í fjögur efstu sætin, en Ísland er í meðallagi. Hér er þó ekki allt, sem sýnist. Bretar og Bandaríkjamenn vörðu sama hlutfalli þjóðarframleiðslunnar (5,4%) til menntamála á vegum ríkisins og við Íslendingar árið 1996, en þá er þess að gæta, að einkaskólar eru miklu algengari þar en hér. Heildarútgjöld Breta og Bandaríkjamanna til menntamála, þ.e. ríkisútgjöld að viðbættum útgjöldum fólksins sjálfs (m.a. til greiðslu skólagjalda í ríkisskólum), eru því mun meiri þar en hér. Svipað á við um Þýzkaland, þar sem til að mynda iðnnám á sér stað að miklu leyti inni í fyrirtækjunum, og einnig um Japan og Suður-Kóreu, þar sem hlutur ríkisins í efnahagslífinu og þá um leið í menntamálum er minni en í Vestur-Evrópu. Tölur UNESCO fyrir 1995 sýna, að hinar Norðurlandaþjóðirnar fjórar skipuðu 8.-14. sæti á listanum yfir þau lönd, sem mestu verja af almannafé til menntamála. Ísland er á hinn bóginn í 76. sæti listans, sem nær yfir 170 lönd. Þessum tölum eru gerð nánari skil í greininni Menntun, menntun, menntun. Tölurnar varpa ljósi á lélegan námsárangur í grunnskólum hér heima. Meðaleinkunn í samræmdum prófum Reykjavík og nágrenni árin 1993-1998 var 5,3 — og undir 5 alls staðar annars staðar á landinu (frá 4,8 á Austurlandi niður í 4,2 á Vestfjörðum).