Útgjöld til menntamála á Norðurlöndum 1960-1996
Mynd 17. Frændur okkar á Norðurlöndum leggja mikla rækt við menntamál: þeir verja 7½-8% þjóðarframleiðslunnar til menntamála, eins og myndin sýnir. Hlutfall ríkisútgjalda til menntamála og þjóðarframleiðslu hefur meira en tvöfaldazt síðan 1960 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en aukningin hefur verið ívið minni í Finnlandi. Ísland sker sig úr. Öll árin á myndinni eru menntamálaútgjöldin minnst hér heima, en ættu þó að réttu lagi vera mest hér, því að aldurssamsetningin er önnur: tiltölulega fleira fólk er á skólaaldri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Takið einnig eftir því, að kreppan á Norðurlöndum árin eftir 1990 leiddi ekki til stórfellds niðurskurðar í menntamálum, heldur jukust menntamálaútgjöldin miðað við þjóðarframleiðslu alls staðar nema á Íslandi, þar sem þau drógust saman. Við verjum sem sagt 2-3% minna af þjóðarframleiðslu okkar til menntamála en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Það myndi með öðrum orðum kosta okkur 2-3% af þjóðarframleiðslunni, eða 12-18 milljarða króna á hverju ári héðan í frá, að jafna forskot frænda okkar, og er skólakerfi þeirra þó ekki að öllu leyti til fyrirmyndar. Það þyrfti því að auka útgjöld til menntamála um helming til að bæta fyrir gamla og nýja vanrækslu á þessum mikilvæga vettvangi. Að öðrum kosti þyrfti að gefa einkarekstri mun lausari taum í menntamálum, helzt hvort tveggja. Um þetta er fjallað nánar í greininni Menntun, menntun, menntun. Og takið að endingu eftir því, að allar þjóðirnar nema Norðmenn vörðu meira fé til menntamála miðað við þjóðarframleiðslu þegar árið 1970 en við Íslendingar gerðum 1996. Þennan aðstöðumun verðum við að jafna, því að menntun er höfuðuppspretta hagvaxtar og velferðar til langs tíma litið. Sjá nýrri upplýsingar á myndum 84 og 85.