Útflutningur Íslands og Írlands sem hlutfall af landsframleiðslu 1960-2006
Mynd 5. Smáþjóðir nærast á viðskiptum við umheiminn langt umfram stórþjóðir, því að þannig bæta smáþjóðirnar sér upp óhagræðið af smæð markaðsins heima fyrir. Þess vegna er útflutningur yfirleitt miklu meiri miðað við landsframleiðslu í litlum löndum en stórum. Mikill og vaxandi útflutningur er ávísun á mikinn og vaxandi innflutning, ekki aðeins á vörum, þjónustu og fjármagni, heldur einnig á tækni, þekkingu og ferskum hugmyndum. Myndin sýnir, að frændur okkar Írar hafa lifað eftir þessu. Árið 1960 nam útflutningur vöru og þjónustu frá Írlandi um 30% af landsframleiðslu Íra á móti 40% hér heima. Síðan þá hefur útflutningur Írlands vaxið mun hraðar en landsframleiðslan og var kominn upp undir 100% af landsframleiðslu 2001, en nemur nú um 80%. Mest var útflutningsaukningin eftir 1973, en einmitt það ár gengu Írar inn í Evrópusambandið meðal annars í því skyni að auka sem allra mest viðskipti sín við önnur Evrópusambandslönd og neyta náins félagsskapar við þau til að hraða ýmsum nauðsynlegum efnahagsumbótum heima fyrir. Þetta tókst með þeim ágætum, að nú er Írland — gamla fátæktarbælið! — komið upp fyrir meðallag Evrópusambandsins í landsframleiðslu á mann og stefnir hærra, því að hagvöxtur Írlands er einnig langt yfir Evrópumeðaltali og virðist munu verða það áfram enn um sinn. Írar hafa haft mörg járn í eldi: Dublin er til dæmis orðin ein helzta háborg evrópskrar hugbúnaðarframleiðslu. Hlutdeild útflutnings í landsframleiðslu Írlands hefur dregizt saman nokkur síðustu ár, þar eð útflutningsvöxturinn hefur dregizt aftur úr vexti hagkerfisins í heild, en útflutningshlutfallið er þó enn um 80%. Okkur Íslendingum hefur ekki tekizt að efla fjölbreyttan útflutning héðan umfram vöxt hagkerfisins í heild. Gengi krónunnar hefur verið of hátt skráð langtímum saman og haldið aftur af vexti útflutnings. Útflutningur okkar er minni miðað við landsframleiðslu en hann var um og upp úr 1960 og hefur haldizt í kringum þriðjung af landsframleiðslu eða rétt rösklega það allar götur síðan. Það er of lágt hlutfall í svo litlu landi, allt of lágt, því að mikill og vaxandi útflutningur er ásamt mikilli og góðri menntun og fjárfestingu veigamikil uppspretta varanlegs hagvaxtar. Það er einsdæmi meðal iðnríkjanna, að hlutdeild útflutnings í landsframleiðslu hafi haldizt óbreytt síðan 1960. Vandinn er ekki nýtilkominn, sjá mynd 50.