Uppeldi
1. júl, 2008

Uppeldi

Anna Lilja Marshall tók viðtalið.

  1. Þú nefnir það í greininni „Hver á að sjá um börnin?“ sem birtist í Fréttablaðinu fyrir nokkrum árum að það skipti máli fyrir barn að hefja menntun á fyrstu árum þess í leikskóla, hvers vegna?

Barnsheilinn er í mótun fyrstu ár ævinnar, eða svo hefur mér skilizt á rannsóknum lífeðlisfræðinga, lækna og sálfræðinga, og hann er eftir því mjög móttækilegur í frumbernsku fyrir hvers kyns uppörvun. Fullorðið fólk kannast við svipuð fyrirbæri úr hversdagslífinu: börn, sem læra snemma erlend tungumál, hafa líkt og ekkert fyrir því að tala þau eins og innfæddir. Þeir, sem læra erlend mál á fullorðinsaldri, tala þau oft með þungum hreim. Börn, sem læra snemma á hljóðfæri, ná iðulega meiri leikni en fólk, sem byrjar að læra á hljóðfæri á fullorðinsaldri. Mér skilst á þessum rannsóknum, sem ég vísa til, að þroski barnsheilans fari svolítið eftir því, sem fyrir börnunum er haft, strax frá fæðingu. Þess vegna þarf menntun barnanna að hefjast strax í leikskólunum, og auðvitað einnig á heimilunum.

  1. Hvar ættu börn helst að alast upp, heima hjá foreldrum eða á leikskólum fyrstu tvö ár ævinnar?

Þetta er þung spurning, sem hvert foreldri verður að svara fyrir sig. Mér hefur sýnzt, að það sé nú orðið algengara en áður, að börn séu sett í leikskóla fyrir tveggja ára aldur. Mér hefur einnig sýnzt, að aðalhvati þessarar breytingar sé þörf foreldranna fyrir að vinna bæði utan heimilis, því að mörg heimili ná ekki endum saman upp á önnur býti. Í öllu falli ríður á því, að leikskólinn sé ekki hugsaður sem geymsla handa börnunum, svo að foreldrarnir fái frið til tekjuöflunar utan heimilis, heldur sem raunverulegur skóli, þar sem vel menntaðir og vel launaðir kennarar vinna markvisst að því að koma börnunum til þroska. Þess vegna finnst mér, að keppa eigi að því að fella leikskólana til fulls inn í skólakerfið, en þó þannig að foreldrum sé frjálst að hafa börnin heima fyrstu árin og kenna þeim þar. Sonarsynir mínir tveir eru í Hagaborg, annar er nýorðinn fimm ára, hinn er nýorðinn tveggja. Þeim líkar vistin mjög vel. Þeim eru sagðar sögur eins og í sveitinni í gamla daga: sá eldri fer með söguna af Búkollu með miklum tilþrifum, hann lærði hana af leikskólakennaranum sínum.

  1. Hvernig er hægt að fá stjórnvöld til þess að leggja meiri fjármuni í menntun ungra barna?

Það hlýtur að vera hægt með þrotlausum fortölum og rökræðum. Sú aðferð hefur hingað til dugað vel. Fyrir fáeinum árum var mun minna fé varið til menntamála á Íslandi en annars staðar um Norðurlönd. Munurinn nam 2%-3% af landsframleiðslu. Margir skólamenn og aðrir gagnrýndu stjórnvöld fyrir vanrækslu menntamálanna, því að mikil og undirstöðugóð menntun mannaflans er ein mikilvægasta uppspretta hagsældar og velferðar. Og viti menn: yfirvöldin tóku sér tak, svo að nú eru fjárveitingar ríkis og sveitarfélaga til menntamála á Íslandi orðnar sambærilegar við fjárveitingar til menntamála annars staðar á Norðurlöndum. Þessi umskipti áttu sér stað á tiltölulega stuttum tíma. Hér þarf að hyggja að því, að Íslendingar eru yngsta þjóðin á Norðurlöndum í þeim skilningi, að hér er hlutfallslega fleira ungt fólk en annars staðar, og eftir því þurfa fjárveitingar til menntamála á öllum skólastigum hér heima að vera ríflegri en ella.

  1. Hverju þarf að breyta til þess að viðhorfið til leikskóla breytist, þ.e.a.s. að frekar sé litið á þá sem menntastofnun heldur en geymslu?

Skólamenn þurfa að brýna fyrir stjórnmálamönnum og almenningi mikilvægi þess, að ung börn njóti strax í leikskólunum hins allra bezta atlætis, sem völ er á. Það þarf að gera miklar og strangar menntunarkröfur til leikskólakennara, og það þarf að greiða þeim góð laun. Hér þarf ekki að gera neinn greinarmun á leikskólum og öðrum skólum: hugsjónin er hina sama. Viðhorfið til skólanna, og ekki bara leikskólanna, virðist þó breytast hægar en þörf væri á sumpart kannski vegna þess, að margir kennarar eru kennarar af lífi og sál, af hugsjón, og setja því ekki fyrir sig þau lágu laun, sem eru í boði fyrir kennslu. Stjórnvöld ganga á lagið. Við þetta bætist það, að skólakerfið er svo að segja allt í höndum ríkis og sveitarfélaga. Af þessu leiðir, að allir kennarar á öllum skólastigum þurfa að semja við tvo samgróna vinnuveitendur. Ríkið og sveitarfélögin neyta einkeypisaðstöðu sinnar til að þrýsta niður launum kennara. Meiri fjölbreytni og samkeppni í skólarekstri myndi rjúfa þessa einkeypisaðstöðu og skapa skilyrði til hækkunar meðallauna kennara á öllum skólastigum. Jafnframt myndi launamunur meðal kennara trúlega færast í vöxt, þar eð skólastjórnendur líkt og aðrir vinnuveitendur myndu helzt vilja fá svigrúm til að greiða mishá laun fyrir mismikla og misgóða vinnu. Þessi skipan er þegar komin á í háskólunum og gefst vel þar, og hún kann með tímanum að færast inn í framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla, enda þótt hlutlægt mat á vinnuframlagi kennara á  þeim skólastigum sé að ýmsu leyti torveldara en á háskólastigi.

  1. Í greininni kemur fram að þú telur að menntun sé best varið heima hjá foreldrum, hvað þarf að breyta leikskólum til að menntunin batni?

Ekki er það nú algild regla. Sumir foreldrar geta ugglaust veitt ungum börnum sínum betra atlæti, betri menntun, en góðir leikskólar. Þegar svo háttar, væri það börnunum í hag að fá að vera heima. En foreldrarnir telja sig iðulega ekki hafa efni á að hafa börnin heima vegna vinnutekjutaps utan heimilisins og setja þau því í leikskóla. Börnin eru ekki spurð. Í þessu dæmi hagnast foreldrarnir á kostnað barna sinna. Sumir aðrir foreldrar myndu ekki veita börnum sínum jafngott atlæti og jafngóða menntun og góðir leikskólar geta gert. Þá er það börnunum í hag að fá heldur að vera í leikskóla. En það er samt varla réttlætanlegt að skylda lítil börn til að vera í leikskóla til að hlífa þeim við foreldrum sínum. Hugmyndin er þó ekki fjarrænni en svo, að einmitt þetta er takmark lögboðinnar skólaskyldu: að svipta foreldra réttinum til að meina börnunum sínum að ganga í skóla. Þessi frjálslynda forræðishyggja er hryggjarstykkið í fræðslulöggjöf alls heimsins.

  1. Telur þú að viðhorf til leikskóla hafi breyst frá þeim tíma sem þú skrifaðir greinina?

Margir töluðu við mig um þessa grein, nú þú. Mér þykir vænt um það. Menntamál og heilbrigðismál eru meðal mikilvægustu viðfangsefna samfélagsins. Það er brýnt, að vel sé haldið á svo mikilvægum málum. Hér hangir tvennt á spýtunni: vitaskuld þarf að veita miklu fé til þessara málaflokka, og það þarf að fara vel með allt það fé, svo að það komi að sem allra mestu gagni. Mér hafa þótt almennar umræður um menntamál og heilbrigðismál snúast um of um fjárskort og minna en skyldi um skipulagsmálin, það er um færar leiðir til að nýta ráðstöfunarféð sem bezt. Skipulag skólamálanna er viðkvæmt og eldfimt efni, og mörgum finnst þægilegra að tala heldur um nauðsyn þess að verja meira almannafé til menntamála, eins og til að forðast erfiðar umræður um aukna fjölbreytni og samkeppni í skólarekstri.