28. nóv, 2006

Töpuð útlán bankakerfisins 1989-2003

Mynd 90. Árin 1989-2003 þurftu innlánsstofnanir og fjárfestingarlánasjóðir að afskrifa töpuð útlán í stórum stíl: samtals rösklega 100 milljarða króna á árslokaverðlagi 2003. Þetta er mikið fé: jafnvirði eins áttunda af landsframleiðslu Íslands 2003. Útlánatapið var mest 1993: þau ár ríkti í rauninni bankakreppa á Íslandi eins og annars staðar um Norðurlönd, þótt stjórnvöld fengjust ekki til að viðurkenna það. Bankar og sjóðir brúuðu bilið með miklum vaxtamun (þ.e. miklum mun útlánsvaxta og innlánsvaxta), sem þeim hélzt uppi vegna lítillar samkeppni — og nær engrar samkeppni að utan. Útlánatapið hefur aukizt hratt síðan árið 2000 og var aðeins litlu minna 2003 en 1993, svo sem við var að búast í kjölfar mikillar aukningar útlána árin næst á undan (sjá mynd 9). Efnahagsreikningur bankanna hefur að vísu bólgnað mjög út undangengin ár, svo að útlánatapið 2003 var mun minna miðað við eignir banka og sjóða en það var 1993. Einkavæðing bankanna 2002 styrkti stöðu þeirra og létti afskriftabyrðina. Heimild: Fjármálaeftirlit og reikningar fjárfestingarlánasjóða.