• Kórverk

2. jan, 2008

Uppi í sveit

Lag eftir Samuel Ward, raddsetning eftir Emerson W. Eads, ljóð eftir Þorstein Gíslason


Lag eftir Samuel Ward, raddsetning eftir Emerson W. Eads, ljóð eftir Þorstein Gíslason.

Forsagan

Föðurafi minn, Þorsteinn Gíslason skáld og ritstjóri (1867-1938), orti m.a. kvæðið Uppi í sveit sem hægt er að syngja við óopinberan þjóðsöng Bandaríkjamanna, America the Beautiful eftir Samuel Ward. Hér eru kvæðið og nóturnar. Útsetningin er eftir Emerson W. Eads, kórstjóra í Alaska.

PDF, Sibelius

Áfylling

Austfjarðaskáldið afi minn Þorsteinn “Ljósið loftin fyllir” Gíslason ólst upp á Kirkjubæ í Hróarstungu og leit á Fljótsdalshérað og firðina sem sína sveit. Heim kominn frá námi í Kaupmannahöfn fyrir aldamótin 1900 fór hann aftur austur og settist að á Seyðisfirði til að ritstýra Valtýingablaðinu Bjarka ásamt Þorsteini Erlingssyni skáldvini sínum. Við Anna eigum málverk Kjarvals af Bjarka, húsinu þar sem prentsmiðjan var niðri og íbúð ritstjórans uppi og við Þórhallur Vilmundarson móðurbróðir minn sóttum heim í löngum nátttúrunafnaleiðangri sumarið 1968 eftir að gæða okkur á rómuðu bananasplitti á Sjómannastofunni og var vel þekkt um allan fjórðunginn. Og því fórum við Anna Karitas ásamt föruneyti aftur austur yfir Fjarðarheiðina sumarið 2020 eins og byssubrennd til að vitja Bjarka og Sjómannastofunnar en við gripum í tómt þar eð okkur var sagt að Bjarki hafi verið rifinn 1970 til að rýma fyrir bílastæði. Féll mér þá svo ketill í eld að ég fékk mig ekki til að spyrjast fyrir um Sjómannastofuna til að verða ekki fyrir tveim áföllum sama daginn. Hinn afi minn, Vilmundur landlæknir, ólst upp á Seyðisfirði, sonur Jóns Guðmundssonar verkamanns þar og Guðrúnar Guðmundsdóttur rithöfundar. Ég er ekki bara Skagfirðingur heldur einnig Austfirðingur (að Ísafirði ógleymdum).