Sextán söngvar fyrir sópran og tenór
Lagabálkur eftir Þorvald Gylfason við ljóð eftir Kristján Hreinsson
Sextán söngvar fyrir sópran og tenór eru sönglagaflokkur eftir Þorvald Gylfason prófessor við kvæði eftir Kristján Hreinsson skáld og heimspeking. Lögin eru samin fyrir sópran, tenór og píanó. Ljóðin og lögin fjalla um söknuð, sorg og gleði, viljann og vonina, ástina, lífið og listina. Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Elmar Gibertsson tenór og Snorri Sigfús Birgisson píanó frumfluttu ljóðaflokkinn í Hannesarholti í Reykjavík 25. nóvember 2017. Skáldið flutti stuttar skýringar á undan hverju lagi og ljóði sem var varpað á vegg á vegg á bak við sviðið. Dagskráin tók um 80 mínútur í flutningi. Kvikmyndafélagið Í einni sæng ásamt Hljóðsmiðjunni tók konsertinn upp fyrir sjónvarp. Sjá kvæðin hér.
EFNISSKRÁ
1. Lágstemmdar línur (Sibelius)
2. Þegar ljóðið lifir (Sibelius) — síðasta lag fyrir fréttir 30. marz 2022
3. Móðurminning (Sibelius)
4. Við glugga um nótt (Sibelius)
5. Ekkert að óttast (Sibelius)
6. Minn eilífi draumur (Sibelius)
7. Lífsblóm (Sibelius)
8. Leiðin liggur heim (Sibelius)
9. Fagur engill fylgir þér (Sibelius)
10. Fögur mynd (Sibelius)
11. Tónlist hjartans (Sibelius)
13. Við gröfina þína (Sibelius)
14. Vonarglæta (Sibelius)
15. Sagan (Sibelius)
16. Ljúfur leikur (Sibelius)
17. Vertu hjá mér
18. Bros — síðasta lag fyrir fréttir 23. apríl 2024
LEIÐIN LIGGUR HEIM
Hérna er landið sem forðum svo fallegt ég sá,
fjöllin sem haustkaldir vindarnir náðu að sverfa,
lognríka myrkrið sem svefnvana sálin mín á
sælunnar fótmál sem hvorki mun eyðast né hverfa.
Hérna er húsið sem eilífa gæfu mér gaf,
gróskunnar vitund sem spor mín að foldinni dregur,
eldur sem lýsir upp draumanna dulúðarhaf,
djásnið í hjartanu, andanna fegursti vegur.
Birtan frá arninum hlustar á loganna ljóð,
léttfættur reykurinn svífur mót himneskum skuggum,
sólgulir bjarmarnir daðra við dýrðlega glóð,
dansandi stjörnurnar speglast í gegnsæjum gluggum.
Aftur fær hugur að leika um æskunnar land;
litanna dásemd sem hjartað í fyrndinni kvaddi,
aftur fer hugur um fjörunnar fegursta sand
sem fýkur í hita en sefur í brennandi gaddi.