• Sönglög

1. jan, 2017

Fimm árstíðir

Lagabálkur eftir Þorvald Gylfason við ljóð eftir Snorra Hjartarson


Fimm árstíðir er heitið á nýjum sönglagaflokki eftir Þorvald Gylfason prófessor við kvæði eftir Snorra Hjartarson. Kvæðin eru Haustið er komið, Ísabrot, Vor og Sumarkvöld, einu nafni Fjórar árstíðir, og loks Í Úlfdölum, fimmta árstíðin. Lögin eru samin fyrir sópran, tenór og píanó.

Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Elmar Gilbertsson tenór og Snorri Sigfús Birgisson píanó frumfluttu ljóðaflokkinn fyrir fullum sal í Hannesarholti í Reykjavík 11. marz 2017. Höfundur laganna flutti stuttar skýringar og las kvæðin fyrir áheyrendur áður en þau voru sungin og leikin. Kvikmyndafélagið Í einni sæng ásamt Hljóðsmiðjunni tók konsertinn upp fyrir sjónvarp. Myndin var sýnd í RÚV 5. apríl 2021. Ný gerð flokksins fyrir sópran, tenór og sinfóníuhljómsveit er í undirbúningi.

Fréttablaðið birti einnig skemmtilega grein um verkið.

Haustið er komið

Ísabrot

Vor

Sumarkvöld

Í Úlfdölum

Samstarfsaðilar

Þorvaldur Gylfason

Höfundur

Þorvaldur Gylfason hefur samið um 140 sönglög, m.a. Sautján sonnettur um heimspeki hjartans, Söngva um svífandi fugla, Sjö sálma og Sextán söngva fyrir sópran og tenór við kvæði Kristjáns Hreinssonar. Sonnettur þeirra félaga voru fluttar í Hörpu 2012 og 2013, fuglasöngvarnir í Salnum í Kópavogi og í Bergi á Dalvík 2014, sálmarnir í Langholtskirkju 2014 og Guðríðarkirkju 2015, og söngvarnir fyrir sópran og tenór í Hannesarholti í Reykjavík 25. nóvember 2017.

Snorri Hjartarson

Höfundur

Snorri Hjartarson (1906-1986) er eitt helzta ljóðskáld Íslands á 20. öld. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1981 fyrir ljóðabókina Hauströkkrið yfir mér (1979). Meðal annarra ljóðabóka hans eru Kvæði (1944), Á Gnitaheiði (1952) og Lauf og stjörnur (1966).

Hallveig Rúnarsdóttir

Söngkona

Hallveig Rúnarsdóttir hefur sungið mörg óperuhlutverk á sviði, m.a. í Íslensku óperunni, og einnig erlendis og komið fram sem einsöngvari með hljómsveitum, m.a. oft með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Undanfarin ár hefur hún einnig lagt áherzlu á ljóðasöng og haldið tónleika með þýzkum, frönskum og norrænum sönglögum. Á geisladiskinum Í ást sólar flytur hún íslenzk sönglög ásamt Árna Heimi Ingólfssyni piánóleikara. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2013 sem söngkona ársins fyrir hlutverk Michaelu í Carmen eftir Bizet í Íslensku óperunni.

Elmar Gilbertsson

Söngvari

Elmar Gilbertsson hefur sungið mörg óperuhlutverk á sviði innan lands og utan, einkum í Hollandi og einnig í Frakklandi, Þýzkalandi og víðar. Hann hlaut Grímuverðlaunin 2014 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson í Íslensku óperunni og aftur 2016 fyrir hlutverk Don Ottavio í Don Giovanni eftir Mozart. Hann hlaut einnig Íslensku tónlistarverðlaunin 2014 sem söngvari ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar og aftur 2017 fyrir hlutverk Lenskís í Évgení Ónegin eftir Tsjækovskí í Íslensku óperunni.

Snorri Sigfússon

Píanóleikari

Snorri Sigfús Birgisson stendur í fremstu röð íslenzkra píanóleikara og er jafnframt mikilvirkt tónskáld. Eftir hann liggur fjöldi tónverka: einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist, sinfónísk verk og sönglög. Tónlist hans er að finna á fjölmörgum geisladiskum og hljómplötum. Hann gekk frá útsetningunni að Í Úlfdölum í hendur söngvaranna tveggja.