• Kórverk

2. jan, 2014

Sjö sálmar

Sálmalög við kvæði eftir Kristján Hreinsson


Kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar frumflutti sálmana 16. nóvember 2014 ásamt Tómasi Guðna Eggertssyni orgelleikara.

Sjá umsögn Jónasar Sen um tónleikana í Fréttablaðinu.

Hljómeyki endurflutti og hljóðritaði sálmana í Guðríðarkirkju í Grafarholti 26. október 2015 eins og heyra má í spilurum hér að neðan. Útgáfan í efri spilara er frá strengjakvartett en neðri spilarinn er frá Hljómeyki.

1.  Skírn

Þú vaknar hér í heimi
og hlýtur strax að sjá
að sál þín er á sveimi
:,: með sannleik, von og þrá. :,:

Þótt verði einhver vandi
á vegi þínum hér,
þá yndislegur andi
:,: mun ávallt fylgja þér. :,:

Að vel þín viska dafni,
er vonin dásamleg
er þú með þínu nafni
:,: þræðir lífsins veg. :,:


2.  Trú
Ég trúi á ást og yndi
en ekki á myrkrið kalt,
ég trúi á leik í lyndi,
á lífið sem sigrar allt.

Ég trúi á okkar æsku
og öldungsins viskubrunn,
ég trúi á tryggð og gæsku,
á traustan og sterkan grunn.

Ég trúi á mannsins mildi,
þann mátt sem svo fagur er,
ég trúi á göfug gildi,
:,: hið góða sem býr í mér. :,:


3.  Ferming

Þín sál er fágæt fjallalind
sem fagnar hverjum degi,
svo ljómar hún í ljúfri mynd
á lífsins góða vegi.

Á vegferð aldrei villist þú
ef vakir hugans mildi
og ef þitt hjarta hefur trú
á heimsins fögru gildi.

Af þinni sál er aðeins eitt
eintak hér að finna
:,: því skaltu ætíð brosa breitt
mót birtu vona þinna. :,:


4.  Von

:,: Viljinn vekur
von um nætur,
draum og dekur
dafna lætur.

Ógnir eyðast
ýmiskonar,
brosir breiðast
birta vonar.

Sofna sakir
og sorg í minni
ef vonin vakir
í vitund þinni. :,:


5.  Gifting

Með visku þráum við
á veraldlegum brautum
að standa hlið við hlið
í heimsins mörgu þrautum.

Á ferð um lífsins land
leitar fólkið svara,
í heilagt hjónaband
hyggjast sálir fara.

Ef leggja okkur lið
lífsins viskubrunnar,
:,: við getum fundið frið
í faðmi hamingjunnar. :,:


6.  Kærleikur

Sá sem hugans kúnstir kann
sér kraft í hjartans merki
ef hann kynnir kærleikann
og kennir hann í verki.

Kærleiksrík og hjartahrein
í heimi lifir vera
sem á sinn frið og aldrei mein
vill öðru lífi gera.

Kærleikur er hreinn og hlýr
ef hugur fylgi máli
:,: því lífsins heita hugsun býr
í hjartans fagra báli. :,:


7.  Minning

Þegar einhver fellur frá
fyllist hjartað tómi
en margur síðan mikið á
í minninganna hljómi.

Á meðan hjörtun mild og góð
minning örmum vefur
þá fær að hljóma lífsins ljóð
og lag sem tilgang hefur.

Ef minning geymir ást og yl
hún yfir sorgum gnæfir
því alltaf verða tónar til
sem tíminn ekki svæfir.

 

Fylgiskjöl

Sjö sálmar: PDF

Skírn: PDF, Sibelius

Trú: PDF, Sibelius

Ferming: PDF, Sibelius

Von: PDF, Sibelius

Gifting: PDF, Sibelius

Kærleikur: PDF, Sibelius

Minning: PDF, Sibelius