15. apr, 2014

Tjáningarfrelsismál

Meiðyrðamálum hefur rignt yfir dómstóla eftir hrun. Mörg eru þessi mál höfðuð gegn þeim, sem hafa lýst eftir uppgjöri við hrunið, að því er virðist til að reyna að þagga kröfur um undanbragðalaust uppgjör. Nokkur mál hafa verið höfðuð af mönnum nátengdum sumum þeirra, sem hafa verið til rannsóknar eða fengið dóma eftir hrun. Fjármálaeftirlitið undir stjórn Gunnars Þ. Andersen sætti ítrekuðum árásum, sem lyktaði með því, að honum var þokað úr starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, eftir að FME hafði undir hans stjórn vísað nærri 80 málum til sérstaks saksóknara. Nú sætir sérstakur saksóknari ásökunum um lögbrot, og fjárveitingar til embættisins hafa verið skornar niður um helming tvö ár í röð. Munstrið er skýrt og þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi reynslunnar að utan. Norsk-franski rannsóknardómarinn Eva Joly sagði fyrir um atvikarás í þessa veru strax 2009. Málin halda áfram að hrannast upp. Aðstoðarmaður fv. dómsmálaráðherra krefst nú fangelsisdóms yfir tveim blaðamönnum.

Ef það mætti verða til að greiða götu þeirra, sem þurfa enn að verjast meiðyrðamálsóknum fyrir rétti, hef ég ákveðið, með leyfi lögmanns míns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl., að birta opinberlega greinargerðir hennar til héraðsdóms og til Hæstaréttar fyrir mína hönd í máli Jóns Steinars Gunnlaugssonar, þá hæstaréttardómara, gegn mér. Þessar greinargerðir væru ella ekki aðgengilegar almenningi, þar eð „Hæstarétti er ekki heimilt að afhenda þessi gögn til annarra en hafa lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að þeim“ eins og segir í bréfi Hæstaréttar til manns, sem bað um að fá að sjá gögnin. Ég tel mig ekki hafa heimild til að birta greinargerðir lögmanns Jóns Steinars í málinu, en lýsi mig fúsan til að birta þær hér við hlið hinna, æski hann þess.

Jón Steinar Gunnlaugsson tapaði máli sínu á báðum dómstigum. Dóm Hæstaréttar í málinu má lesa hér. Frétt Réttar um dóminn má lesa hér. Viðbrögð Jóns Steinars við dómi Hæstaréttar má lesa hér. Athugasemdir Atla Gíslasonar hrl. vegna viðbragða Jóns Steinars má lesa hér. Svar Jóns Steinars til Atla má lesa hér. Umsagnir og fréttir um málflutning og annað vafstur Jóns Steinars Gunnlaugssonar er t.d. að finna hér og hér.