Fréttablaðið
9. apr, 2002

Þvert á stefnuna

Vaxtalækkunin um daginn gengur þvert gegn stefnu Seðlabankans. Í lýsingu bankastjórnarinnar á nýjum ramma peningastefnunnar segir ,,Sé verðbólga, sem spáð er næstu tvö árin, í ósamræmi við verðbólgumarkmiðið ber bankanum að bregðast við með aðgerðum í peningamálum.“ Þetta þýðir, að vextir skuli ekki lækka svo lengi sem verðbólgan er umfram sett verðbólgumarkmið, svo sem allt stefnir í, að verði áfram enn um sinn, enda á Ísland nú Evrópumet í verðbólgu. Vaxtalækkunin stríðir einnig gegn starfsreglum bankastjórnarinnar, en þær kveða á um, ,,að tryggt sé eftir föngum að við ákvarðanir í peningamálum séu viðhöfð bestu fagleg vinnubrögð og að þær séu vel grundaðar og í samræmi við markmið bankans“ og ,,að fyrir liggi eftirá hvernig einstakar ákvarðanir voru teknar og hvaða ráð og rök lágu að baki.“ Því þarf engan að undra, að bæði Þjóðhagsstofnun og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telji, að vaxtalækkunin hafi verið misráðin.