Morgunblaðið
9. okt, 2001

Þurfum að skerpa skilning

Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands heldur upp á 60 ára afmæli sitt um þessar mundir og efnir til ýmislegs mannfagnaðar og fundahalds af því tilefni. Meðal annars mun Þorvaldur Gylfason rannsóknarprófessor í deildinni halda tvo opinbera fyrirlestra um hagvöxt. Morgunblaðið hafði samband við Þorvald vegna þessa og óskaði eftir inntakslýsingu á fyrirlestrunum.

Þetta eru ekki fyrstu opinberu fyrirlestrar þínir um hagvöxt í Háskóla Íslands, eða hvað?

,,Nei, ég hélt fyrsta opinbera fyrirlesturinn í þessari syrpu í fyrrahaust, og nefndist hann ,,Hagvöxtur um heiminn“. Þar skýrði ég í grófum dráttum frá rannsóknum mínum og margra annarra í hagvaxtarfræðum síðustu ár. Það hefur verið mikil gróska í hagvaxtarfræðum víða um heiminn að undanförnu. Hagfræðingar hafa eins og aðrir orðið vitni að því, hversu lífskjörum fleygir fram í sumum löndum, á meðan önnur lönd vaxa hægt, standa í stað eða jafnvel drabbast niður. Þessi mikli munur á hagvexti milli landa vekur áleitnar spurningar um það, hvernig á þessu geti staðið. Sums staðar er skýringuna að finna í ólíku hagskipulagi. Þannig hefur markaðsbúskapur sýnt sig hafa ótvíræða yfirburði umfram miðstýrðan áætlunarbúskap. En þetta dugir þó ekki til að skýra, hvers vegna lönd með svipað markaðsbúskaparlag, t.d. Írland og Grikkland, vaxa mjög mishratt langtímum saman. Ég færði rök fyrir því í fyrirlestrinum í fyrra, að fjárfesting, menntun og frjáls viðskipti hefðu sýnileg áhrif á hagvöxt um heiminn til langs tíma litið.“

Yfirskrift fyrri fyrirlestursins núna er ,,Móðir náttúra: Menntar hún börnin sín? Eflir hún vöxt og viðgang?“ Hvað felst í þessu?

,,Við vitum, eða þykjumst vita, að meiri og betri menntun örvar hagvöxt og bætir með því móti lífskjör almennings. En hvers vegna leggja þjóðir heimsins mismikið upp úr menntun barna sinna? Í athugunum mínum og annarra undangengin ár hefur athyglin beinzt að náttúruauðlindagnægð og þeim áhrifum, sem hún kann að hafa á hagvöxt, meðal annars í gegn um menntun. Reynslan virðist benda til þess, að þjóðir, sem eiga gnægð náttúruauðlinda, hneigjast til að fyllast falskri öryggiskennd, sem freistar þeirra til að vanrækja ýmislegt af því, sem mestu skiptir fyrir öran hagvöxt til langs tíma litið, þar á meðal menntun. Við vitum, að ríkir foreldrar eiga það til að spilla börnum sínum. Móðir Náttúra er alveg eins. Ég mun reifa þessi tengsl milli náttúruauðlindagnægðar, menntunar og hagvaxtar í fyrri fyrirlestrinum og sýna myndir máli mínu til stuðnings.“

Síðari fyrirlesturinn ber yfirskriftina ,,Stendur jöfnuður í vegi fyrir vexti?“ Við  hvað er átt með því?

,,Hagvöxtur er ofinn úr mörgum þráðum. Við höfum nefnt fjárfestingu, menntun, fríverzlun og náttúrugnótt í þessu spjalli, en margt annað orkar einnig á hagvöxt, þar á meðal einkarekstur og frjálst framtak. Reynslan virðist benda til þess, að einkarekstur örvi hagvöxt umfram ríkisrekstur, enda þótt almannavaldið hafi ýmsum augljósum skyldum að gegna í blönduðum markaðsbúskap og efli hagvöxtinn, til dæmis í gegn um menntakerfið og heilbrigðisþjónustu. Og alveg eins og skipting framleiðslunnar milli einkafyrirtækja og almannavalds getur haft áhrif á hagvöxt, hefur sú spurning vaknað, hvort skipting tekna og eigna milli þegna þjóðfélagsins geti ekki með líku lagi orkað á hagvöxtinn. Er aukinn ójöfnuður milli þegnanna til þess fallinn að örva hagvöxt, eins og sumir hafa haldið fram? Eða getur það verið, að aukinn ójöfnuður hneigist til að ala á sundrungu í samfélaginu, draga úr menntun og hamla hagvexti með því móti? Þessar spurningar ætla ég að glíma við í síðari fyrirlestrinum, en við Gylfi Zoëga, dósent í Birkbeck College í London, erum einmitt að fást við samband jafnaðar og hagvaxtar um þessar mundir.

Á almenningur erindi á svona fyrirlestra?

,,Um það verða áheyrendur að dæma. Hagvöxtur skiptir máli. Í fátækum löndum skiptir hann meira máli en næstum allt annað. Við þurfum því að reyna að skerpa skilning okkar á því, hvað skilur á milli mikils og lítils hagvaxtar um heiminn. Efnið er í eðli sínu ekki flóknara en svo, að það á að vera hægt að koma því til skila á mannamáli. Ég ætla mér að minnsta kosti að reyna það.“

Þess má svo að lokum geta, að báðir fyrirlestrarnir verða fluttir í Lögbergi, sá fyrri á morgun 10. október klukkan 16.15 og sá seinni miðvikudaginn 7. nóvember, einnig klukkan 16.15.

Guðmundur Guðjónsson tók viðtalið.