Þroski fjármálakerfisins og hagvöxtur 1965-1998
Mynd 55. Hagstjórn ræður að sönnu miklu um hagvöxt til langs tíma litið, en einráð er hún ekki. Stofnanir samfélagsins hafa einnig umtalsverð áhrif á hagvöxtinn. Lýðræði til dæmis örvar yfirleitt hagvöxtinn, einræði hægir á honum. Trúnaðartraust í viðskiptum eflir hagvöxt, óheiðarleiki rýrir hann, og þannig mætti lengi telja. Þroskað fjármálakerfi glæðir hagvöxtinn, en vanþroska fjármálakerfi hamlar honum. Hvers vegna? Jú, það stafar af því, að vel þroskað, helzt háþróað, fjármálakerfi þarf til þess að laða fram sparnað og beina honum að arðbærri fjárfestingu. Ef verðbólga er mikil, þá nær fjármálakerfið ekki að þróast eðlilega, og fólk sparar því of lítið (treystir ekki bönkunum), og fyrirtækin fjárfesta of lítið. Þetta styður hvort annað: minni verðbólga kemur fjármálakerfinu til meiri þroska, sem dregur svo aftur úr verðbólgu, og þannig koll af kolli. Það er engin tilviljun, að fjármálabyltinguna hér heima bar upp á svipaðan tíma og hjöðnun verðbólgunnar (sjá Tíu vörður á vegi). Myndin að ofan sýnir sambandið milli þroska fjármálakerfisins og hagvaxtar í 85 löndum árin 1965-1998. Hver punktur á myndinni lýsir meðalgildum fyrir hvert land yfir tímabilið í heild. Við nálgumst féþroskann eða fjárdýptina (e. financial maturity, financial depth) með peningum og sparifé (M2) í hlutfalli við landsframleiðslu (sjá mynd 35) og sýnum þá stærð á láréttum ás. Löndin lengst til hægri á myndinni eru Sviss og Japan: þar hefur peningavæðing hagkerfisins gengið lengst, enda hefur verðbólga verið lítil í báðum löndum. Hagvöxtinn mælum við alveg eins og á mynd 52 og sýnum hann á lóðréttum ás. Við sjáum, að hagvöxturinn helzt í hendur við þroska fjármálakerfisins. Þjóð, sem tekst að auka hlutfall peninga og sparifjár úr 20% af landsframleiðslu, sem er algengt hlutfall víða í þróunarlöndum, í 60% getur vænzt þess, að hagvöxtur á mann glæðist um 2 prósentustig á ári að öðru jöfnu. Það er ekki lítið, og má af því ráða mikilvægi þess að halda verðlagi í skefjum og halda áfram að efla og bæta fjármálamarkaðinn.