27. apr, 2009

Þjónustuhagkerfið 2006

Mynd 42. Þjónusta er langmikilvægasti atvinnuvegurinn á Íslandi ekki síður en annars staðar um heiminn. Í OECD-löndum nemur þjónusta yfirleitt um tveim þriðju hlutum landsframleiðslunnar, iðnaður um 30% og landbúnaður (þar með talinn sjávarútvegur) um 2-3% eða minna. Hlutur iðnaðar og landbúnaðar fer smám saman minnkandi eftir því sem þjónustu vex fiskur um hrygg. Í mörgum þróunarlöndum og fyrrverandi kommúnistalöndum er hlutdeild þjónustu í landsframleiðslu komin langt upp fyrir helming. Myndin sýnir atvinnuvegaskiptingu landsframleiðslunnar hér heima 2006. Þá komst skerfur þjónustu til landsframleiðslunnar upp í 67% borið saman við 54% árið 1980. Iðnaður (án fiskvinnslu) leggur til 24% landsframleiðslunnar, nokkru minna en 1980. Mikil framleiðni í íslenzkum iðnaði lýsir sér meðal annars í því, að hlutdeild iðnaðarins í mannafla er aðeins 19%, þótt hlutdeild hans í landsframleiðslunni sé 24%. Sjávarútvegur hefur dregizt saman (bæði veiðar og vinnsla) miðað við landsframleiðslu: skerfur útvegsins til landsframleiðslunnar var 7% 2006, en var 16% 1980. Þetta er eðlileg þróun og hlýtur halda áfram. Ástæðan er sú, að landsframleiðslan hefur vaxið örar síðan 1980 en aflaverðmæti úr sjó, þar eð fiskstofnarnir eru fullnýttir og ríflega það. Mannauðinum, sem er undirstaða þjónustunnar, eru á hinn bóginn engin takmörk sett. Til samanburðar var hlutdeild útvegsins í mannafla 5% 2006 á móti 10% 1998 (sjá mynd 33). Þessar tölur um útveginn — 7% af landsframleiðslu, 5% af mannafla — eru til marks um minnkandi framleiðni vinnuafls í sjávarútvegi, því að fyrir nokkrum árum var hlutur útvegsins í framleiðslunni mun meiri en hlutur hans í mannaflanum líkt og í iðnaði. Það er eftirtektarvert, að sjávarútvegurinn skuli ekki taka iðnaðinum fram að þessu leyti, þegar nær ókeypis afnot útvegsins af fiskimiðunum eru tekin með í reikninginn og önnur fyrirgreiðsla. Landbúnaður hefur líka skroppið saman: hlutdeild hans í landsframleiðslunni er komin niður í 1,4%, en var 5% 1980. Lítil framleiðni í landbúnaði sést á því, að hlutdeild hans í mannafla er tæp 4%, þótt framlag landbúnaðarins til landsframleiðslunnar sé aðeins 1,4%. Úr því að samanlögð hlutdeild gömlu forgangsatvinnuveganna til sjós og lands í landsframleiðslu hefur minnkað úr 21% niður í 8% síðan 1980, svo sem fyrirsjáanlegt var (og fyrirséð!), og stefnir enn neðar á næstum árum, er þá ekki kominn tími til að draga myndarlega úr beinum og óbeinum styrkjum ríkisins til þessara atvinnuvega? — og taka heldur til við að bæta og efla menntun þjóðarinnar, því að þar liggja sóknarfærin í framtíðinni, og þótt fyrr hefði verið. Þetta hefur verið gert áður, þótt landbúnaðurinn væri þá að vísu skilinn út undan (sjá mynd 1). Og er ekki kominn tími til að hugsa um fleira en þröng sjónarmið sjávarútvegsins í umræðum um Evrópumál?