RÚV
11. okt, 1993

Þjóðarskemman

Þjóðarskemman, hús og heimili okkar allra, er eins og aðrar byggingar. Hún útheimtir vandlegt viðhald og endurbætur. Fúnir innviðir sjást ekki auðveldlega. Utan frá getur allt virzt vera í góðu lagi, þótt innviðirnir séu að veikjast eða jafnvel bresta vegna vanrækslu.

Bolshoj-óperan í Moskvu er gott dæmi um þetta. Frábært leikhús hefur verið látið drabbast niður að innan árum saman, þótt framhliðinni hafi verið haldið sæmilega við til að villa um fyrir vegfarendum. Nú er svo komið, að Rússum sjálfum er um megn að gera við bygginguna, svo að Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur tekið að sér að gera húsið upp fyrir eigin reikning.

Eitthvað þessu líkt getur hent heil þjóðfélög, ef þau gá ekki að sér. Ef þjóðarskemman spillist að innanverðu, getur viðgerðarkostnaðurinn orðið illviðráðanlegur á endanum. Þetta eru Færeyingar að reyna um þessar mundir. Þeim er ókleift að vinna sig út úr þeim vanda, sem þeir hafa komið sér í, án verulegrar fjárhagsaðstoðar frá Dönum. Færeyingar urðu ofveiði og óhóflegri skuldasöfnun erlendis að bráð. Óskynsamleg kjördæmaskipun virðist eiga mikinn þátt í þessum óförum.

Færeyjar eru ekkert einsdæmi. Argentína var eitt ríkasta land heims á fyrstu ártugum þessarar aldar, en dróst síðan aftur úr öðrum hátekjulöndum og er nú ekki orðin nema svipur hjá sjón. Þetta gerðist smám saman, svo að sumir tóku jafnvel ekki eftir því fyrr en eftir dúk og disk. Ríkisstjórn Argentínu lagðist gegn fríverzlun. Ætlunin var að vernda innlenda framleiðendur gegn erlendri samkeppni. Verndarstefnan dró úr hagvexti og viðgangi í Argentínu, á meðan heimsbúskapurinn blómstraði í skjóli sífellt frjálsari viðskipta.

Hnignun Færeyja og Argentínu stafar af vanrækslu á viðhaldi. Innviðir efnahagslífsins fúnuðu, án þess að stjórnvöld gættu þess að styrkja þá jafnharðan með því að leiðrétta lög og leikreglur atvinnulífsins í samræmi við kall og kröfur tímans.

Okkur hættir stundum til að gleyma því, að innflutningur landbúnaðarafurða til Íslands var frjáls á síðustu öld og fyrstu þrjá áratugi þessarar aldar. Frumvarp til laga um aðflutningsgjöld af smjöri og öðru viðmeti var til að mynda fellt á Alþingi árið 1889. Þá var til þess tekið, að verndarfíkn skyldi gera vart við sig í þingsölum í fyrsta sinn. En þingmenn höfðu næman skilning á kostum frjálsra búvöruviðskipta í þá daga. Bændur réðu lögum og lofum á þinginu, eins og eðlilegt var. Íslendingar fluttu inn á annað hundrað tonn af osti á hverju ári á þriðja áratug þessarar aldar auk annars, og þótti engum mikið.

Jón Sigurðsson forseti – óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur – hefði ekki orðið undrandi. Hann var áhrifamesti boðberi frjálsra viðskipa í landinu um sína daga. Eiríkur Briem prófessor lýsir Jóni svo í ævisögu hans í Andvara:

,,Jón sýndi glöggt fram á það af sögu landsins, að verzlunin hafi jafnan verið hið mesta nauðsynjamál þess, og að svo hafi mátt heita, að komið hafi verið við lífæð allrar velmegunar í landinu, í hvert skipti sem nokkur bönd hafi verið lögð á hana; jafnframt skýrði hann frá skoðunum hinna yngri hagfræðinga um eðli frjálsrar verzlunar… og hélt því fram, að nauðsyn bæri til að losa öll bönd af verzluninni, svo að hún yrði landsmönnum sem arðmest; fylgdi hann máli þessu af miklu kappi, en það mætti, sem vænta mátti, mikilli mótspyrnu…”

Þessi hlið þjóðfrelsishetjunnar vill þó stundum gleymast, því að Jónasi Jónssyni frá Hriflu varð ekki tíðrætt um viðskiptafrelsisbaráttu Jóns forseta í Íslandssögu sinni, sem var kennd í öllum barnaskólum landsins um margra áratuga skeið. Haftapostular riðu ekki feitum hesti frá viðskipum við Jón forseta. ,,Var það þá eigi fyrir ístöðulitla menn að mæla í móti honum, “ segir Eiríkur Briem.

Menn eru misjafnlega vel að sér í dýrafræði eins og gengur, en eitt þykjast næstum allir vita, og það er, hvernig strúturinn ber sig að, þegar hann verður hræddur. Hann stingur hausnum í sandinn.

Þessarar spurningar um strútinn er hægt að spyrja hvar sem er um allan heim, og flestir svara henni á sama hátt og sjá dýrið ljóslifandi fyrir sér. En þetta er ekki rétt. Strúturinn stingur hausnum ekki í sand, þegar hann hræðist, heldur hleypur hann burt – og getur náð allt að 65 kílómetrum á klukkustund. Það, sem flestir halda, að sé staðreynd um strútinn, er alls engin staðreynd, heldur þjóðsaga.

Þjóðsögur er lífseigar yfirleitt. Það liggur í hlutarins eðli. Sumar eru sakleysið sjálft eins og sagan um strútinn, aðrar ekki.

Margir Íslendingar virðast halda það, að sjávarútvegur sé ennþá mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Við sjáum þetta í sjónvarpinu á hverju kvöldi og heyrum það í útvarpinu. Þar eru fluttar endalausar fréttir af sjósókn og fiskvinnslu á færibandi, eins og fréttamennirnir eigi lífið að leysa. Þar hafa menn það hver eftir öðrum, að sjávarútvegur skili okkur yfir 80% af útflutningstekjum og annað eftir því.

Þetta er samt ekki rétt. Sannleikurinn er sá, að sjávarútvegur skilar okkur Íslendingum rétt liðlega helmingi af útflutningstekjum okkar og um sjötta parti af þjóðartekjum. Hlutfallið er að vísu ívið hærra, ef skyldar greinar eins og skipasmíði og veiðarfæragerð eru taldar með. Allt þetta geta menn séð svart á hvítu í opinberum hagskýrslum. Fimm sjöttu af þjóðartekjum okkar Íslendinga eiga upptök sín í landi. Aðeins einn af hverjum átta Íslendingum vinnur við sjávarútveg. Með öðrum orðum: sjö af hverjum átta vinna við annað en fisk.

Við erum ekki lengur fiskveiðiþjóð fyrst og fremst. Við lifum á iðnaði, verzlun og þjónustu eins og þjóðirnar í kringum okkur og eins og þjóðir þriðja heimsins gera líka í vaxandi mæli. Iðnaður, verzlun og þjónusta eru mikilvægasti atvinnuvegur heims. Við erum engin undantekning.