5. feb, 2008

Þegar útvegurinn var tekinn af beinu ríkisframfæri 1959-1961

Mynd 1. Eitt af fyrstu verkum viðreisnarstjórnarinnar árið 1959 var að taka sjávarútveginn af beinu ríkisframfæri. Vinstri myndin sýnir, að ríkisútgjöld til útvegsins voru skorin niður úr 43% af ríkisútgjöldum í heild í 3% á aðeins tveim árum. Féð, sem þannig var losað, var notað til að auka framlög til menntamála úr 7% í 11% af ríkisútgjöldum, framlög til heilbrigðismála úr 6% í 8%, til tryggingamála úr 10% í 26% — og landbúnaðarmála úr 8% í 16% (!). Á móti var gengi krónunnar fellt í tvígang 1960 og 1961, svo að útvegurinn hélt að vonum velli. Takið eftir tvennu: (1) þetta var gert svo að segja í einum rykk og (2) ríkisstjórnin boðaði þennan róttæka uppskurð ekki fyrir kosningarnar 1959, heldur gekk hún rösklega til verks strax að lokinni stjórnarmyndun — og sat síðan að völdum í 12 ár. Sem sagt: þetta er hægt. Einmitt þetta þarf að gera við landbúnaðinn án frekari tafar, eins og gert var á Nýja-Sjálandi 1984, og þótt fyrr hefði verið, og síðan aftur við sjávarútveginn, því að hann er nú á óbeinu ríkisframfæri í gegnum gjafakvótakerfið. Um þetta segir í nýrri skýrslu Þjóðhagsstofnunar: ,, … er áætlað að verðmæti réttinda til að sækja sjó við Ísland hafi numið 23-24 milljörðum króna á fiskveiðiárinu 1996/97. Ef þessi verðmæti hefðu verið færð sem kostnaður, þá hefði ekki verið 3 milljarða króna hagnaður af sjávarútvegi á árinu 1996 heldur 20 milljarða tap, þ.e. tap sem nemur um þriðjungi af tekjum greinarinnar!!” (Þjóðarbúskapurinn nr. 26, marz 2000, bls. 35).