8. júl, 2005

Þegar landinu var lokað 1920-1930

Mynd 50. Þessi mynd sýnir hlutfall vöruútflutnings og innflutnings af landsframleiðslu á Íslandi frá 1870 til 1945. Þótt hagvöxturinn væri lengstum frekar hægur þetta tímabil (sjá mynd 49), fór hlutur erlendra viðskipta þó vaxandi, eins og vera ber í gróandi þjóðlífi. Þetta snerist þó við árin 1920-1930: eftir það fóru útflutningur og innflutningur minnkandi miðað við landsframleiðslu. Þetta var ekkert slys, heldur ákvað alþingi vitandi vits, ef svo má að orði komast, að hefta viðskipti við útlönd, meðal annars með því að banna innflutning á landbúnaðarafurðum og skrá gengi krónunnar of hátt, svo að útflutningur dróst saman og þá einnig um leið getan til að greiða fyrir innflutning frá útlöndum. Þessi slagsíða var ekki leiðrétt fyrr en með myndun viðreisnarstjórnarinnar 1959, en þá tóku bæði útlutningur og innflutningur fjörkipp í kjölfar gengisfellingar og meðfylgjandi stjórnarráðstafana. Milli áranna 1959 og 1960 þaut útflutningur úr 20% upp í 43% af landsframleiðslu, og innflutningur jókst úr 22% í 46% af landsframleiðslu. Framhaldinu er lýst á mynd 5. Tölurnar á myndinni að ofan eru teknar úr riti dr. Guðmundar Jónssonar lektors, Hagvöxtur og iðnvæðing: Þróun landsframleiðslu á Íslandi 1870-1945, Þjóðhagsstofnun, Reykjavík, 1999. (Tölurnar ná aðeins yfir vöruviðskipti, þjónusta er ekki talin með.)