Stúdentablaðið
30. apr, 2010

Stúdentablaðið

Spurningar Stúdentablaðsins um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

Þorvaldur Gylfason

Ertu búinn að lesa skýrsluna?

Já, að mestu.

Kom innihald hennar þér á óvart?

Nei. Ég lýsti þeirri skoðun fyrir Rannsóknarnefndinni í janúar 2009, að hlutverk hennar væri að svipta hulunni af því, sem allir vissu. Nefndin stóðst prófið.

Vakti lestur hennar upp einhverjar tilfinningar?

Skýrslan reynist ekki vera hvítþvottur eins og margir óttuðust, úr því að stjórnvöld þvertóku fyrir að fela óháðum erlendum mönnum rannsókn hrunsins og girða þannig fyrir grunsemdir um hlutdrægni. Skýrslan er gagnleg greinargerð um ábyrgð bankanna og stjórnvalda á bankahruninu.

Hvaða upplýsingar komu þér helst á óvart við lestur skýrslunnar?

Mér kemur ekkert á óvart í skýrslunni. Höfundar hennar taka í öllum aðalatriðum undir gagnrýni mína á ríkisstjórnina og Seðlabankann fyrir hrun. Skýrslan er samfelldur áfellisdómur yfir gamla bankakerfinu og stjórnkerfinu. Hún lýsir gerspilltu og getulausu stjórnkerfi, sem hegðaði sér eins og hundur í bandi.

Hefur þú áhyggjur af íslensku viðskiptasiðferði?

Íslenskt viðskiptasiðferði er í molum. Viðskiptaráð, sem taldi Ísland standa Norðurlöndum „framar á flestum sviðum“ skömmu fyrir hrun, heldur áfram að gefa út leiðbeiningar um hagstjórn eins og ekkert hafi í skorizt. Það þarf að smúla dekkið ekki bara í bankakerfinu og stjórnmálalífinu, heldur einnig í viðskiptalífinu.

Hvaða leiðir telur þú að séu færar til að bæta íslenskt viðskiptalíf?

Að minni hyggju er meðal annars nauðsynlegt, að þeir, sem brutu af sér, verði látnir að sæta ábyrgð að lögum.

Eiga þeir menn sem nefndir eru í skýrslunni sem lykilmenn hrunsins að fara í fangelsi?

Það er ekki mitt að dæma um það. Skýrslan segir berum orðum, að bankarnir hafi brotið lög og þrír ráðherrar og fjórir embættismenn hafi sýnt vanrækslu. Mér sýnist líklegt, að dómstólar þurfi að fjalla um, hvort þessar niðurstöður skýrslunnar leiði til fangelsisdóma eða ekki. Verði stjórnendur bankanna, ráðherrar og embættismenn dæmdir til fangavistar, getur forseti Íslands náðað bankastjórnendur og embættismenn samkvæmt heimild í stjórnarskrá, en ráðherra getur hann þó ekki leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis. Mér sýnist líklegt, að hvort heldur sýknudómar eða fangelsisdómar og náðun myndu vekja úlfúð í samfélaginu.

Er íslenskt réttarkerfi með nógu breiðan refsiramma fyrir jafn umfangsmiklum efnahagsbrotum eins og staðfestur grunur bendir til í þessu máli?

Nei, ég tel að bankahrunið kalli á breytingar á lögum um meðferð efnahagsbrota.

Hvað finnst þér um þátt stjórnvalda í þessu öllu saman?

Þau brugðust eins og skýrslan lýsir. Tíu alþingismenn reyndust hver um sig hafa fengið 100 milljónir króna eða meira að láni í bönkunum, einkum til að kaupa hlutabréf. Að auki þágu stjórnmálaflokkarnir og einstakir frambjóðendur þeirra mikið fé af bönkunum og tengdum aðilum í aðdraganda hrunsins.

Töluverða gagnrýni á háskóla landsins er að finna í skýrslunni. Hvað getur háskólasamfélagið lært af þessu?

Háskólamenn dönsuðu of margir með bönkunum og stjórnvöldum, sumir gegn greiðslu eða hlunnindum. Gagnrýnisraddir voru hrópaðar niður. Háskólavændi – hvað er hægt að kalla það annað? – er vandi, sem háskólayfirvöldum ber að taka á.

Viltu bæta einhverju við?

Skýrsla Rannsóknarnefndarinnar leiðir hjá sér meðal annars þá mikilvægu spurningu, hvort bankarnir eða stjórnvöld hafi brotið gegn 249. grein hegningarlaga um umboðssvik. Með umboðssvikum er átt við, að einn maður leggi á annan fjárskuldbindingar í heimildarleysi. Einmitt það virðist hafa gerzt í IceSave-málinu. Dómstólar munu væntanlega þurfa að fjalla um þennan þátt málsins. Mér þykir einnig líklegt, að einhverjir angar bankahrunsins komi til kasta erlendra dómstóla.