DV
27. okt, 1989

Stjórnin kyndir undir verðbólgu

Fjárlagafrumvarpið meingallað, segir Þorvaldur Gylfason:

Stjórnin kyndir undir verðbólgu

— löng erlend lán 53% af þjóðartekjum í árslok 1990

,,Frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir næsta ár er meingallað að mínum dómi,” segir Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í samtali við DV.

,,Tvennt ber hæst. Í fyrsta lagi ætlar ríkisstjórnin að halda áfram að kynda undir áframhaldandi verðbólgu, hálfpartinn óvart að því er virðist, jafnvel þótt viðnám gegn verðbólgu eigi enn að heita eitt höfuðviðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Með þessu á ég ekki eingöngu við fyrirhugaðan þriggja milljarða króna halla á A-hluta fjárlaganna, heldur á ég fyrst og fremst við fyrirhugaðar heildarlántökur ríkisins og þensluáhrif þeirra á þjóðarbúskapinn á næsta ári.

Erlendar skuldir hækka

Einn angi þessa vanda birtist í því að erlendar skuldir þjóðarinnar munu samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hækka upp í 53 prósent af þjóðartekjum í árslok 1990, en þær námu 41 prósenti af þjóðartekjum um síðustu áramót. Þessi hækkun á aðeins tveimur árum felur það í sér að hvert mannsbarn í landinu skuldar um 700 þúsund krónur erlendis í árslok 1990 í stað 400 þúsund króna í lok síðasta árs. Þetta þýðir að erlendar skuldir hverrar fjögurra manna fjölskyldu í landinu aukast um 1.200 þúsund krónur á þessum tveimur árum, 1989 og 1990, eða um 50 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Þessi skuldasöfnun nær auðvitað engri átt í kjölfar einhvers mesta góðæris sem þjóðin hefur lifað.

Svo er annað. Þrátt fyrir áframhaldandi þenslu og meðfylgjandi aukningu erlendra skulda hyggst ríkisstjórnin skera útgjöld sín niður á næsta ári um 4 til 5 prósent að raungildi. Samt gefur efnahagsvandinn nú ekkert skynsamlegt tilefni til þess að ríkissjóður sé í fjárþröng. Það er að vísu rétt að tekjur þjóðarinnar, vergar þjóðartekjur, hafa rýrnað um 4 prósent alls að raunverulegu verðmæti á þessu ári og í fyrra, en þessi samdráttur er samt smávægilegur í samanburði við uppsveifluna í efnahagslífinu árin tvö næst á undan, 1987 og 1988, því að þau tvö ár jukust raunverulegar þjóðartekjur um 20 prósent á sama mælikvarða. Þjóðin er þess vegna miklu betur stæð nú en fyrir fjórum árum, að ekki sé farið lengra aftur í tímann. Við erum eftir sem áður ein auðugasta þjóð heims, ef þjóðartekjur á mann eru hafðar til marks, jafnvel þótt við hefðum getað ávaxtað auðlegð okkar miklu betur með skynsamlegra búskaparlagi í mörgum greinum.

Skeytingarleysi

Rífleg útgjöld ríkisins til ýmissa umdeildra ráðninga og verkefna að undanförnu eru reyndar órækur vottur þess að það er nóg til af peningum. Og það segir sína sögu að fjárveiting til aðalskrifstofu fjármálaráðuneytisins sjálfs á næsta ári er aukin um 18 prósent að raungildi samkvæmt fjárlagafrumvarpinu í samanburði við gildandi fjárlög fyrir þetta ár og stöðugildum á vegum sama ráðuneytis er fjölgað um 58, að því er næst verður komist, meðal annars vegna upptöku virðisaukaskatts í stað söluskatts. Útgjöld vegna sendiráða Íslands í útlöndum aukast um meira en 20 prósent að raungildi samkvæmt frumvarpinu. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir og fleiri landbúnaðarliðir þenjast út um 8 til 9 prósent að raungildi og annað eftir því. Hins vegar er fjárveiting til Menntaskólans í Reykjavík skorin niður um 6 prósent að raungildi og til Raunvísindastofnunar Háskólans um 11 prósent og þannig áfram. Vandinn er ekki fjárskortur, heldur skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar um menntun og menningu þjóðarinnar.

Eitt enn að lokum. Það væri hægt að fara miklu betur með opinbert fé en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Með því að ráðast gegn gífurlegri sóun á mörgum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði og banka- og sjóðakerfinu, væri hægt að losa mjög mikið fé og nýta það til uppbyggingar um allt land og til þess að renna styrkum stoðum undir ríkisbúskapinn og binda þannig enda á eilífan hallarekstur ríkisins sem hefur kynt undir verðbólgu og skuldasöfnun í útlöndum mörg undanfarin ár. Það verk er óunnið,” sagði Þorvaldur Gylfason.

Gunnar Smári Egilsson tók viðtalið.