Skírnir
4. mar, 2015

Stjórnarskrá í salti

Eftir að gjörvallt bankakerfi Íslands hrundi til grunna árið 2008 og verðmæti sem þá jafngiltu sjöfaldri landsframleiðslu eyðilögðust, þusti fólk úr öllum lögum samfélagsins út á götur og torg og krafði skjálfandi stjórnmálamenn sína reikningsskila. Þeim má segja til hróss, að þeir gáfust upp þegar búsáhaldabyltingin náði hámarki í janúar 2009 og mótmælendur stóðu á tröppum Alþingishússins og sungu ættjarðarsöngva. Fyrst Rauði herinn lagði ekki í að ráðast gegn syngjandi mótmælendum í Eystrasaltslöndunum árið 1991, þá hlutu mótmælendur á Íslandi að treysta því að lögreglan héldi aftur af sér. Yfirlögregluþjónn í fullum skrúða, ágætur söngmaður, gekk í raðir mótmælenda og tók undir með þjóðkórnum fyrir framan Alþingishúsið. Leiknum var lokið.