Morgunblaðið
10. júl, 1987

Stjórn ríkisfjármála sérstaklega vandasöm á næstu árum

Stjórn ríkisfjármála sérstaklega vandasöm á næstu árum

segir Þorvaldur Gylfason prófessor

 

Morgunblaðið fór þess á leit við Þorvald Gylfason prófessor, að hann segði álit sitt á efnahagsstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Þorvaldur hafði eftirfarandi að segja:

,,Málefnasamningur ríkisstjórnarinnar er mjög skilmerkilegur að þessu sinni og mjög skynsamlegur í mörgum greinum að mínum dómi. Sérstaklega er eftirtektarvert, hversu mikill kunnáttubragur er á köflunum um efnahags-og atvinnumál, að undanskildum landbúnaðarmálum. Að vísu skýtur skökku við, að ný ríkisstjórn skuli þurfa að grípa til hálfgerðra neyðarráðstafana í upphafi þrátt fyrir óvenjulegt góðæri til sjós og sveita undanfarin ár og óvenjulega friðsamlegt andrúmsloft á vinnumarkaði. En um það er ekki að fást, úr því sem komið er, heldur er mest um vert, að ríkisstjórnin reyni að læra af mistökum undangenginna ára við stjórn landsins næstu misseri.

Lítill ágreiningur um markmiðin

Um höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum getur varla verið mikill ágreiningur. Næstum allir eru hlynntir minni verðbólgu, minni halla á ríkissjóði, minni halla á viðskiptum við útlönd, minni erlendum skuldum og meiri sparnaði. Ríkisstjórnin hyggst fara hefðbundnar leiðir til að reyna að ná þessum markmiðum og leggur nú áherslu á nauðsyn samræmds aðhalds í ríkisfjármálum, peningamálum og gengismálum, en allmikið hefur stundum skort á skynsamlega samræmingu efnahagsstefnunnar á liðnum árum. Þannig hefur veruleg þensla í ríkisfjármálum síðustu ár stangazt á við aðhald Seðlabankans í gengis- og vaxtamálum, svo að dæmi sé tekið.

Stjórn ríkisfjármála verður sérstaklega vandasöm á næstu árum, ekki aðeins vegna þeirrar tímabæru heildarendurskoðunar og einföldunar skattkerfisins, sem ríkisstjórnin boðar, heldur líka vegna þess, að strangt aðhald í opinberum fjármálum er nausynlegt að mínum dómi til að ná verðbólgunni niður við núverandi aðstæður. Þá á ég ekki við ríkissjóð einan, það er A-hluta ríkissjóðs, heldur alla opinbera starfsemi. Það er ekki nóg, ,,að halla á ríkissjóði verði eytt á næstu þremur árum”, eins og það er orðað í málefnasamningnum, ef önnur starfsemi á vegum ríkis og byggða í B-og C-hluta ríkisfjármálanna er rekin með miklum halla eftir sem áður. Þannig er mjög brýnt, að ríkisstjórnin stofni ekki til nýrra opinberra útgjalda, til dæmis í húsnæðiskerfinu í B-hluta ríkisfjármálanna, umfram sparnað á öðrum sviðum eða umfram þær tekjur, sem hún treystir sér til að afla innanlands án frekari peningaprentunar eða skuldasöfnunar, það er án þess að ýfa verðbólguna.

Ríkisbankakerfið alvarlegur verðbólguvaldur

Með þessu er þó ekki sagt, að verðbólgan hér undanfarin ár hafi stafað eingöngu af mistökum í stjórn ríkisfjármála eða efnahagsmála yfirleitt í venjulegum skilningi, heldur hafa önnur atriði líka haft sitt að segja. Ég hef áður bent á tvo bresti í innviðum íslenzks efnahagslífs, sem ég held, að hollt sé að hafa hugann við, þegar menn leita leiða til að ráða niðurlögum verðbólgunnar til frambúðar.

Í fyrsta lagi býr þjóðin enn við ríkisbankakerfi, sem er næstum einstakt í okkar heimshluta. Mér sýnist, að þetta bankakerfi hafi verið alvarlegur verðbólguvaldur gegnum tíðina vegna þess, að sjórnmálahagsmunir hafa hvað eftir annað yfirgnæft venjuleg viðskipta- og hagkvæmnissjónarmið við ákvörðun útlána. Þess vegna hafa óarðbær útlán bankakerfisins og meðfylgjandi peningaþensla áreiðanlega verið miklu meiri en hefði orðið, ef hér væru öflugri einkabankar með sanngjarnar arðsemiskröfur að leiðarljósi. Örlög Útvegsbankans eru skýrt dæmi um þetta. Endurreisn bankans eykur raunverulegan halla á ríkisbúskapnum um næstum milljarð króna á þessu ári. Þess vegna finnst mér ástæða til að fagna ákvæði málefnasamnings stjórnarflokkanna um, að dregið verði úr ábyrgð ríkisins og afskiptum af bankareksti og lánastarfsemi. Ástæðan er ekki sú, að ríkisbankar þurfi endilega að vera verr reknir en einkabankar, enda er ekkert algilt lögmál til um það efni. Ástæðan er sú, að stjórnmálahagsmunir ríkisbankanna stangast iðulega á við hagsmuni almennings og hafa að því er virðist kynt undir peningaþenslu og verðbólgu um langt skeið.

Hitt atriðið er ekki síður mikilvægt að mínum dómi, þótt því hafi ekki verið gefinn mikill gaumur á síðustu árum. Það varðar skipulag vinnumarkaðsins. Meinsemdin í þessu skipulagi er hin saman og hún hefur verið um árabil. Hún er annars vegar sú, að fyrirtæki hafa ekki svigrúm innan þessa skipulags til að bregðast við áföllum öðruvísi en með því að fækka fólki eða heimta verðbólguráðstafanir af ríkinu, og hins vegar sú, að launþegar hafa iðulega hag af því að knýja fram kauphækkanir, sem ríða fjölda fyrirtækja að fullu, nema ríkisvaldið hleypi vandanum út í verðlagið. Af þessu höfum við margfalda reynslu hér, til dæmis frá 1977. Síðustu ár hafa launþegasamtökin þó sýnt mikla hófsemi í kaupsamningum og þannig átt mikinn þátt í hjöðnun verðbólgunnar. En vinnumarkaðskerfið er engu að síður óbreytt og býður hættunni heim. Um þennan vanda er ekkert að finna í málefnasamningi stjórnarflokkanna.

Tímabært að gerbreyta landbúnaðarstefnunni

Um landbúnaðarmál, sem ég nefndi í upphafi, er það að segja, að kaflinn um þann mikilvæga málaflokk er óljós og loðinn. Það hefði virzt eðlilegt, að ríkisstjórn, sem telur vert að taka fram í málefnasamningi, að mikilvægt sé, ,,að öllum þjóðfélagsþegnum sé gert kleift að nýta tómstundir sínar til hollra og þroskandi viðfangsefna” og ýmislegt annað í sömu tóntegund, teldi hæfa að setja í samninginn ákvæði um að taka myndarlega á miklum vanda landbúnaðarins. Ríkið eyðir eins og kunnugt er fjallháum fjárhæðum í niðurgreiðslur og uppbætur á útflutning landbúnaðarafurða, meðan niðurgreiddu kindakjöti er ekið á öskuhaugana í stórum stíl. Það er að mínum dómi löngu tímabært að gerbreyta landbúnaðarstefnunni af augljósum hagkvæmnisástæðum. Það er hægt, án þess að bændur bíði tjón. Það er meðal annars fyrir frumkvæði bænda í Bandaríkjunum, að ríkisstjórnin þar í landi hyggst nú afnema niðurgreiðslur landbúnaðarafurða í áföngum, eins og fram kom í fréttum fyrir skömmu”.