Facebook
13. sep, 2025

Stefán í Lúdó

Við sátum saman drykklanga stund í garðinum bak við Jómfrúna fyrir fáeinum árum við Stebbi, ég hafði kynnzt honum áður í Ræsi. Hann sagði mér tvennt sem festist í minni mínu. Við í Lúdó, sagði hann, við höfðum þá þegar markað okkur bás með saxófóni og öllu því og sáum ekki ástæðu til að breyta neinu þegar Bítlarnir birtust. Ég þekkti söguna. Þorsteinn bróðir minn, jafnaldri Stebba, sagði mér að hann hefði verið í hópnum sem dreif Stebba upp á svið í Hlégarði sem varð upphafið að 60 ára söngferli hans. Hitt var að mér heyrðist Stebbi alls ekki sjá eftir að halda bara sínu striki og taka því sem verða vildi og ég skildi það betur þegar hann bætti því við að enn kæmu til hans bláókunnugar konur til að þakka honum fyrir sönginn á ballinu þar sem þær kynntust bændum sínum. Það þótti mér fallegt að heyra. Mikill er máttur tónlistarinnar.