Morgunblaðið
22. maí, 2002

Stærðin skiptir ekki öllu máli

Ráðstefna Háskóla Íslands og Harvard-háskóla um hagkerfi smárra eyríkja

Hagvöxtur í ríkjum þar sem íbúar eru færri en milljón hefur verið sambærilegur við hagvöxt í stórum ríkjum undanfarna fjóra áratugi. Hins vegar virðist stærðin hamla ríkjum þar sem íbúafjöldi er á bilinu 1-10 milljónir, segir Steingrímur Sigurgeirsson, sem sat ráðstefnu um hagkerfi smárra eyríkja, sem haldin var í Harvard-háskóla í samvinnu við Háskóla Íslands.

Ísland og heimsbúskapurinn – Hagkerfi smárra eyríkja á tímum alþjóðavæðingar var yfirskrift ráðstefnu er haldin var í Harvard-háskóla á mánudag. Ráðstefnan var haldin í sameiningu af Alþjóðaþróunarstofnun John F. Kennedy School of Government og Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni var fjallað um hvernig litlum hagkerfum hefði vegnað á undanförnum árum og þá ekki síst Íslandi, sem er það smáríki er náð hefur hvað mestum efnahagslegum og félagslegum árangri í heiminum. Hópur erlendra og íslenskra fræðimanna flutti erindi á ráðstefnunni og kynnti rannsóknir sínar á þessu sviði. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sat ráðstefnuna og stjórnaði umræðum á henni hluta dags.

Ráðstefnan hófst á því að þeir Þorvaldur Gylfason prófessor og Jeffrey Sachs, professor við Harvard og forstöðumaður Alþjóðaþróunarmiðstöðvarinnar, fjölluðu almennt um stöðu smáríkja.

Þorvaldur sagði að smæð hefði jafnt kosti sem galla í för með sér þegar hagkerfi væru annars vegar. Helstu kostirnir væru þeir að lítil þjóðfélög væru einsleitari en þau stærri, sem dregur úr félagslegri spennu og auðveldar þar með hagvöxt. Þau eru yfirleitt opnari fyrir fjárfestingum og viðskiptum og upplýsingaflæði er skilvirkara en í stærri ríkjum, þar sem boðleiðir eru lengri og flóknari. Lítil hagkerfi bjóða hins vegar ekki upp á eins mikla stærðarhagkvæmni og þau stærri og þar sem íbúar eru færri koma ekki fram jafnmargir snillingar á borð við Mozart, líkt og Þorvaldur orðaði það. Úrtakið er minna. Lega smáríkja er einnig oftar en ekki óhagstæð, þar sem þau er mörg hver annað hvort fjarlægar eyjar eða hafa ekki aðgang að sjó.

Af þeim 207 ríkjum, sem er að finna í heiminum í dag, eru 43 með íbúafjölda á bilinu 100 þúsund til milljón. Þar af eru 26 eyríki. Meðaltalsíbúafjöldi smáríkjanna er 373 þúsund en 28,7 milljónir í öllum ríkjunum 207. Þjóðarframleiðsla á mann er hins vegar að meðaltali töluvert meiri í smáríkjunum en heimsmeðaltalið eða 9.600 dollarar á móti 6.900 dollurum.

Lykilatriði að vera opin fyrir alþjóðaviðskiptum

Þorvaldur sagði hins vegar að smáríki væru að mörgu öðru leyti keimlík þeim stóru þegar hagtölur væru skoðaðar. Á samanburðartímabilinu 1960-1999 hefði til að mynda ekki verið mikill munur á fjárfestingum og hagvexti á milli samanburðarhópanna. „Stærð virðist ekki skipta eins miklu máli og halda mætti,“ sagði Þorvaldur Gylfason. Það væri þó lykilatriði fyrir smáríki, ef þau ætluðu að ná árangri, að vera opin fyrir alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum.

Jeffrey Sachs tók í sama streng og sagði auðlegð smáríkja vera afrakstur alþjóðaviðskipta. Staðsetning skipti hins vegar miklu máli upp á gengi þeirra. Íslendingar nytu þess að vera nálægt jafnt Evrópu sem Bandaríkjunum, loftslag væri milt og mikið af náttúruauðlindum.

Sachs sagði hóp kjarnaríkja vera drifkraft hagvaxtar í heiminum en þessi ríki væru Bandaríkin og Kanada, ríki Vestur-Evrópu, Japan, Ísrael, Ástralía, Taívan, Hong Kong, Nýja-Sjáland og Ástralía. Í þessum ríkjum yrðu flestar nýjungar til ef nýskráning einkaleyfa í Bandaríkjunum væri notuð sem mælikvarði.

Í rannsókn Sachs, sem tók til áranna 1980-1998, var ríkjum skipt upp í þrjá flokka. Í fyrsta flokknum eru kjarnaríkin, í öðrum flokki eru ríki sem eru í innan við þrjú þúsund kílómetra fjarlægð frá kjarnaríkjunum og hafa að auki aðgang að hafi og í þeim þriðja önnur og fjarlægari ríki. Í ljós kom að tekjur nærríkjanna voru að jafnaði helmingi hærri en fjarlægari ríkja óháð stærð þeirra. Þetta telur Sachs mega rekja annars vegar til nálægðar fyrri hópsins við kjarnaríkin og hins vegar að fjarlægari ríki eru mörg hver í hitabeltinu. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að auðlegð er mest í ríkjum utan hitabeltisins.

Ein athyglisverðasta niðurstaðan var hins vegar sú að ekki var greinarlegur munur á hagvexti smáríkja (með færri en milljón íbúa) og stærri ríkja. Skipti þá ekki máli í hvaða flokki þau voru. Hins vegar virtust millistór ríki (þar sem íbúafjöldinn er á bilinu ein til tíu milljónir) líða fyrir „smæð“ sína. Sachs taldi að hugsanleg skýring á þessu væri sú að hagvöxtur í stærri ríkjum byggðist á innlendum tækninýjungum og framförum í iðnaði auk erlendra fjárfestinga. Hagvöxtur minni hagkerfa byggðist að mestu á útflutningi til kjarnaríkja. Í mjög litlum ríkjum gæti reynst nóg að einni grein, s.s. ferðaþjónustu eða fjármálaþjónustu, vegnaði vel til að allt hagkerfið nyti góðs af. Í smáríkjum þar sem íbúafjöldi væri 1-10 milljónir væri hins vegar þörf á að nokkrum útflutningsgreinum vegnaði vel, en því markmiði væri erfiðara að ná.

Smæðinni fylgdi hins vegar einnig ákveðin áhætta. Þannig myndi það hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir mjög lítil hagkerfi ef þau hefðu ekki eins greiðan aðgang að mörkuðum kjarnaríkjanna. Þá eru efnahagssveiflur mun meiri í mjög litlum hagkerfum óháð því í hvaða flokki þau eru.

Auðlindastjórnun

Þorvaldur Gylfason og Martin Weitzman, hagfræðingur við Harvard-háskóla, kynntu á ráðstefnunni ritgerð sína um auðlindastjórnun. Þorvaldur og Weitzman færa rök fyrir því að kerfi sem byggist á óheftum aðgangi að auðlindinni en jafnframt auðlindagjaldi, er greitt yrði eftir að afla er landað, sé mun skilvirkara stjórntæki en kvótakerfi. Þeir segja að þrátt fyrir að hægt sé að sýna fræðilega fram á yfirburði auðlindagjalds geti reynst erfitt að afla slíku kerfi stuðnings þar sem með upptöku þess væri í raun verið að afnema óbeina niðurgreiðslu í gegnum kvótakerfið.

Þorvaldur og Weitzman rekja meðal annars í fimmtán liðum hvernig sníða megi ýmsa helstu galla kvótakerfisins í burtu, þar á meðal of mikla afkastagetu flotans, brottkast og of litla stærðarhagkvæmni.

Einnig flutti Már Guðmundsson, yfirhagfræðingur Seðlabanka Íslands, fyrirlestur um gengismál og Gylfi Zoëga um íslenska hagkerfið og stærðarhagkvæmni.

Að ráðstefnunni lokinni hélt Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opinn fyrirlestur í Harvard-háskóla þar sem hann fjallaði um áhrif alþjóðavæðingarinnar á Ísland. Rakti forsetinn hvernig íslensk fyrirtæki hefðu nýtt sér ýmis tækifæri á erlendum mörkuðum. Alþjóðavæðing ógnaði ekki smáríkjum heldur opnaði nýjar dyr og möguleika. Jafnvel væru teikn á lofti um að ný gullöld smáríkja væri í uppsiglingu að því gefnu að þau framfylgdu skilvirkri efnahagsstefnu og opnuðu hagkerfi sín fyrir umheiminum.

Steingrímur Sigurgeirsson tók saman