7. júl, 2005

Spillingarvísitala 2004

Mynd 70. Nokkur undangengin ár hefur Transparency International í Berlín safnað upplýsingum um spillingu víðs vegar um heiminn. Þetta er gert með því að leggja spurningalista fyrir menn, sem stunda viðskipti, og spyrja þá um mútugreiðslur og því um líkt: hversu mikil brögð séu að þeim, hversu hart sé eftir þeim gengið og þannig áfram. Spillingarvísitalan tekur með öðrum orðum til fjármálaspillingar eingöngu, en ekki til annarra tegunda svo sem fríðindaspillingar, fyrirgreiðsluspillingar og útnefningarspillingar, þ.e. spillingar í embættaveitingum og þess háttar. (Ég geri nánari grein fyrir þessari sundurgreiningu spillingar í lokakaflanum í bók minni, Hagkvæmni og réttlæti; sjá hann hér.) Þessum upplýsingum er síðan raðað þannig saman, að úr verður svo nefnd spillingarvísitala. Hún verður hæst talan tíu í þeim löndum, þar sem spilling er talin vera nánast engin, og lægst núll, þar sem spillingin er talin vera botnlaus. Spillingarvísitalan er birt á hverju ári, en hún breytist ekki mikið frá ári til árs. Þessi vísitala hefur verið notuð í hagvaxtarrannsóknum síðustu ár; þær sýna, að spilling virðist draga umtalsvert úr hagvexti frá einu landi til annars (sjá myndir 26 og 62). Takið nú eftir því, hvernig löndin raðast á myndina að ofan. Finnland er efst á blaði, lítil spilling þar, og Danmörk og Nýja-Sjáland fylgja skammt á eftir. Hér sannast það sem oft áður, að Nýja-Sjáland sver sig í ætt við Norðurlönd, þótt landið liggi hinum megin á hnettinum. Þar næst er Ísland í fjórða sæti og þannig áfram. Noregur dróst niður eftir listanum um skeið, en tók sig aftur á og er nú í áttunda sæti. Takið eftir því, að Síle er eina Suður-Ameríkulandið á listanum yfir 32 óspilltustu lönd heimsins. Og takið eftir því, að Ítalía kemst ekki á blað þrátt fyrir hreingerningu undangenginna ára; landið er í 42. sæti listans. Og takið einnig eftir því, að Afríkulandið Botsvana er eina Afríkulandið á listanum yfir löndin 32. Það er áreiðanlega engin tilviljun, að Botsvana á heimsmetið í hagvexti: þar hefur vöxtur landsframleiðslu á mann síðan 1965 verið meiri en nokkurs staðar annars staðar í heimunum síðan þá, enda þótt talsvert hafi hægt á vextinum þar síðan 1990, meðal annars vegna þess, að eyðniveiran hefur höggvið djúp skörð í mannafla og efnahagslíf landsins. Botsvönu er lýst nánar í ritgerðinni Að vaxa í sundur. Takið loks eftir því, að víðfeðmari spillingarvísitala, sem nær til allra helztu þátta spillingar, gæti flutt ýmis lönd til á listanum að ofan; nefnum þó engin nöfn. Þess verður vonandi ekki langt að bíða, að Transparency International breikki skilgreiningu sína á spillingu til að ná betur yfir fyrirbærið í heild sinni. Það verk er aðkallandi meðal annars vegna þess, að mörgum sýnist, að landlæg spilling sé einn helzti dragbítur á hagvexti í Afríku og víðar í þróunarlöndum