8. júl, 2005

Spilling og náttúruauðlindir

Mynd 21. Myndin sýnir náttúruauðæfi á láréttum ás (eins og á myndum 19 og 20) og vísitölu spillingar á lóðréttum ás og nær yfir 45 lönd. Spillingarvísitalan nær frá 0 í þeim löndum, þar sem spilling er mest, upp í 10, þar sem spilling er nánast engin (eins og t.d. í Danmörku, Noregi og Nýja-Sjálandi). Með spillingu er átt við misnotkun almannavalds í eigin þágu. Myndin sýnir tært og tölfræðilega marktækt samband: eftir því sem náttúruauðurinn og meðfylgjandi hráefnabúskapur aukast frá einu landi til annars, þá eykst spilling, eins og hún er mæld. Þegar hlutdeild náttúruauðs í þjóðarauði eykst um 6 prósentustig (t.d. úr 8% í 14%), þá lækkar spillingarvísitalan (þ.e. spilling eykst) um eitt stig. Fylgnin er tölfræðilega marktæk. Nýjar rannsóknir benda til þess, að lækkun spillingarvísitölunnar (þ.e. aukning spillingar) um tvö stig frá einu landi til annars dragi úr hagvexti á mann um hálft prósentustig á ári að jafnaði, ef annað breytist ekki. Myndin að ofan felur því í sér, að aukning náttúruauðs um 12 prósentustig (t.d. úr 6% af þjóðarauði í 18%) hneigist til að minnka hagvöxt á mann um hálft prósentustig á ári að jafnaði með því einu að ýfa upp eða ýta undir spillingu, þótt annað gerist ekki. Þessi áhrif eru umtalsverð, að því tilskildu, að myndin sé til marks um orsakatengsl. Hugmyndin hér er sú, að miklum náttúruauðæfum fylgi alla jafna mikil rentusókn og meðfylgjandi hætta á spillingu, þegar rentusóknarar reyna — og þeim tekst það iðulega með ágætum! — að sveigja stjórnvöld á sitt band á kostnað almennings. Hér er þá komin enn önnur hugsanleg skýring á því, hvers vegna náttúruauðlindagnægð og meðfylgjandi frumframleiðsla virðast draga úr hagvexti að öðru jöfnu. Um þetta er fjallað nánar í ritgerðunum Náttúra, vald og vöxtur og Náttúruauðlindir, útflutningur og Evrópa.