8. júl, 2005

Spilling og hagvöxtur 1965-1998

Mynd 62. Hefur spilling áhrif á hagvöxt? Sumir hafa haldið því fram, að spilling (þ.e. mútur og þess háttar) greiði fyrir framkvæmdum og viðskiptum og geti því örvað hagvöxt með því móti. Aðrir hafa haldið því fram, að spilling færi verkefni og viðskipti á rangar hendur og dragi þannig úr hagkvæmni og hagvexti. Um þetta gátu menn þrefað fram og til baka, svo lengi sem ekki var hægt að slá máli á spillingu. En nú vill svo til, að síðustu ár hafa menn safnað tölum um spillingu víðs vegar um heiminn. Spillingarvísitalan, sem hér er stuðzt við, kemur frá Transparency International, sem er alþjóðleg spillingareftirlitsstofnun í Berlín.  Vísitalan nær frá 0 í þeim löndum, þar sem spilling er mest, upp í 10, þar sem spilling er nánast engin (eins og t.d. í Danmörku og Finnlandi). Með spillingu er ekki aðeins átt við mútur og mútuþægni, heldur einnig við misnotkun almannavalds í eigin þágu. Myndin sýnir tært og tölfræðilega marktækt samband milli spillingar og hagvaxtar: eftir því sem spillingin eykst (þ.e. spillingarvísitalan lækkar) frá einu landi til annars, þá dregur úr hagvexti. Aðfallslínan gegnum punktana 64 á myndinni bendir til þess, að lækkun spillingarvísitölunnar um einn punkt frá einu landi til annars fari saman við samdrátt í hagvexti um eitt prósentustig á ári. Sambandið er tölfræðilega marktækt (raðfylgnin er 0,78). Hagvaxtartölurnar á lóðrétta ásnum hafa verið lagaðar að þjóðarframleiðslu á mann við upphaf tímabilsins með því að draga frá þann hluta hagvaxtarins, sem rekja má til þróunarstigs hvers lands. Þetta er gert til að eyða grunsemdum, sem kynnu annars að vakna um það, að myndin lýsi ekki öðru en því, að spilling sé meiri í fátækum löndum en ríkum og ríku löndin vaxi örar en hin. (Raunar er hitt nær sanni, að fátæk lönd vaxi örar en rík, á meðan þau eru að saxa á forskot hinna ríku, og það ætti þá að veikja sambandið milli hagvaxtar og spillingar, en sleppum því.) Barátta gegn spillingu þarf því ekki að vera af siðferðilegum rótum runnin nema í aðra röndina. Nei, barátta gegn spillingu er jafnframt barátta fyrir meiri hagvexti og betri lífskjörum almennings. Sambandi spillingar og náttúruauðlindagnægðar er lýst á mynd 21.