Morgunblaðið
22. okt, 1987

Solow er einn áhrifamesti þjóðhagfræðingur samtímans

Robert M. Solow, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði:

Solow er einn áhrifamesti þjóðhagfræðingur samtímans

— segir Þorvaldur Gylfason prófessor

Í tilefni af því, að dr. Robert M. Solow, prófessor í hagfræði við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) í Bandaríkjunum, hefur verið sæmdur Nóbelsverðlaunum í hagfræði í ár, hefur Morgunblaðið beðið dr. Þorvald Gylfason prófessor að segja frá rannsóknum Solow í stuttu máli.

Umsögn Þorvalds fer hér á eftir.

,,Dr. Robert Solow hefur komið víða við á löngum og glæsilegum vísindaferli og stundað merkilegar rannsóknir í mörgum greinum hagfræði. Merkast er tvímælalaust framlag hans til þjóðhagfræði, en sú grein fjallar um þjóðarbúskapinn í heild – góðæri, hallæri, hagvöxt, verðbólgu, atvinnuleysi, greiðslujöfnuð og gengi og þannig áfram. Solow hefur líka stundað mikilvægar rannsóknir í rekstrarhagfræði, sem fjallar um atferli einstaklinga, rekstur fyrirtækja og lögmál markaðsviðskipta. Það er þó einkum tvennt, sem skarar fram úr á rannsóknaferli Solows að mínum dómi.

Í kjölfar Keynes

Solow hefur verið í hópi þeirra hagfræðinga, sem hafa átt mestan þátt í að móta nútímaþjóðhagfræði í kjölfar þeirrar hagfræðibyltingar, sem hófst undir lok kreppunnar miklu á fjórða áratugnum og kennd er við enska hagfræðinginn John Maynard Keynes. Kjarni kenningar Keynes var og er sá, að þjóðarframleiðsla og atvinnuástand á hverjum tíma ráðast af margslungnu samspili margra þátta, meðal annars peningamála og ríkisfjármála, sem ríkisvaldið getur haft veruleg áhrif á, auk margra annarra þátta, sem ríkið fær engu ráðið um. Solow hefur verið og er enn meðal hinna allra fremstu í flokki þeirra hagfræðinga, sem hafa brotið kenningu Keynes til mergjar, sniðið af henni hnökrana og haslað henni völl meðal hagfræðinga, stjórnmálamanna og almennings út um allan heim. :Þannig hefur Solow verið og er enn í dag einn af helztu frumkvöðlum og oddvitum þeirrar þjóðhagfræði, sem enn er kennd við Keynes, þótt margt hafi að sjálfsögðu breyzt í tímans rás. Það er meðal annars fyrir þetta framlag, sem Solow hlýtur Nóbelsverðlaun nú.

Frumkvöðull hagvaxtarfræðinnar

Hins vegar er Solow einn helzti upphafsmaður hagvaxtarfræðinnar, en hún er sá angi þjóðhagfræðinnar,sem fjallar sérstaklega um þróun þjóðarframleiðslunnar yfir löng tímabil. Forsagan er sú, að þjóðarframleiðslufræði Keynes fjallaði fyrstu tuttugu árin næstum eingöngu um ákvörðun þjóðarframleiðslunnar í bráð og framleiðslusveiflur frá einu skeiði til annars. Hins vegar var ekki mikið um það vitað lengi framan af, hvaða lögmálum þjóðarframleiðslan lýtur yfir lengri tímabil. Solow setti fram kenningu sína um þessi lögmál í frægri ritgerð árið 1956. Þessi ritgerð og önnur verk Solows í framhaldi af henni eru enn í dag grundvöllur hagvaxtarfræðinnarog eru kennsluefni í hagfræðideildum allra háskóla heims. Þetta framlag Solows var mjög gagnlegt, því að það skerpti skilning hagfræðinga á því, að hagvöxtur ræðst á endanum af fólksfjölgun og tækniframförum fyrst og fremst . Ríkisstjórn í hagstjórnarhugleiðingum getur þess vegna yfirleitt engu ráðið um hagvöxt til lengdar, nema hún geti haft áhrif á fólksfjölgun og tækniframfarir. Þessu höfðu menn ekki áttað sig á til fulls, fyrr en Solow kom til sögunnar.

Solow hefur fengizt við ýmislegt annað gegnum tíðina. Upp á síðkastið hefur hann til dæmis skrifað merkar ritgerðir um áhrif kjarasamninga milli verklýðsfélaga og vinnuveitenda á atvinnuleysi. Hann hefur líka fengizt við fiskihagfræði, framleiðslufræði, ríkisfjármál og marg fleira.

Vinsæll kennari

Solow hefur líka verið áhrifamikill, virtur og vinsæll kennari við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) alla tíð. Hann er lítillátur og leiftrandi skemmtilegur. Hann er háskólamaður fyrst og fremst. Hann hefur ekki verið umsvifamikill ráðgjafi ríkisstjórna, en hann hefur skrifað mikið um hagfræði og efnahagsmál handa almenningi. Segja má, að tvær kynslóðir hagfræðinga vestan hafs og austan standi í mikilli þakkarskuld við Robert Solow, beint eða óbeint. Sjálfur er ég reyndar í síðari hópnum því að það voru einmitt nemendur hans sem kenndu mér hagfræði við Princeton háskóla í Bandaríkjunum á sinni tíð. Ég hef litið upp til hans, síðan ég kynntist verkum hans fyrst, og fagna því, að honum skuli hafa verið veitt þessi viðurkenning nú. Mér finnst það líka vera fagnaðarefni, að verðlaun sem þessi skuli yfirhöfuð vera veitt, því að þau draga athygli fólks að því, æskufólks ekki sízt, að það er hægt að leggja mikið af mörkum í fræðum og vísindum ekki síður en í listum, íþróttum og stjórnmálum.”